Fólk á flótta

Fólk á flótta
19. mars sl. var merkisdagur í Mosfellsbæ þegar tíu flóttamenn fluttu þangað, sex fullorðnir og fjögur börn. Gerður hefur verið samningur á milli Mosfellsbæjar og velferðarráðuneytisins um móttöku og stuðning við nýju bæjarbúana.

Landlaust fólk
Flóttafólkið er frá Úganda en kemur hingað úr flóttamannabúðum í Kenýa þar eð þeim var ekki vært í heimalandi sínu. Því miður er það nöturleg staðreynd að enn þarf fólk að sæta ofsóknum og grimmilegum refsingum vegna kynhneigðar sinnar.
Tugir milljónir manna eru á flótta víða um heim af ýmsum ástæðum. Stríðsátök, hörundslitur, trúarbrögð, þjóðerni, stjórnmálaskoðanir og kynhneigð eru þar efst á blaði. En óháð því hvaða orsakir búa hér að baki er lífsreynsla og líðan flóttamanna ævinlega svipuð, þeir lifa í stöðugum ótta við ofbeldi og ofsóknir og oft er þeim nauðugur einn kostur að yfirgefa föðurland sitt og halda landlausir út í óvissuna.
Aðeins lítill hluti flóttamanna heimsins fær úrlausn sinna mála og það er beinlínis siðferðisleg skylda okkar Íslendinga og margra annarra þjóða að hlaupa undir bagga og veita flóttafólki skjól og sjálfsögð mannréttindi. Þar skiptir sérhver einstaklingur miklu máli.

Velkomin í Mosfellsbæ!
Sjálfboðaliðar úr Rauðakrossdeild Mosfellsbæjar hafa unnið ötullega að móttöku hópsins og hjá bæjarfélaginu vinnur starfsmaður tímabundið að verkefninu. Þar er í mörg horn að líta: Útvega húsnæði, innanstokksmuni, flíkur og leikföng. Einnig að hjálpa fólkinu til að aðlagast sem fyrst nýjum aðstæðum, börnin hafa þegar hafið skólanám og hin vilja byrja strax að vinna og fara á íslenskunámskeið. Einn þeirra er Hakim sem segir í blaðaviðtali: „Ég er með miklar væntingar um að þetta skref eigi eftir að breyta lífi mínu. Ég ætla að eignast nýja vini og vonandi öðlast nýtt líf á nýjum stað. Ég hlakka til að byrja að læra íslensku og verða hamingjusamur á Íslandi.“
Ég býð þessa nýju Mosfellinga innilega velkomna í bæinn.

Bjarki Bjarnason, forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.