Forgangsmál á nýju þingi

Við upphaf 147. löggjafarþings leggja þingmenn Vinstri grænna fram nokkurn fjölda þingmála sem nær yfir breitt málefnasvið. Málin eru unnin með markmið jöfnuðar, sjálfbærni, friðar og kvenfrelsis í forgrunni. Forgangsmál þingflokksins á þessu þingi eru að vanda þrjú og eru eftirtalin:

Tillaga til þingályktunar um stefnu í efnahags- og félagsmálum. Fyrsti flutningsmaður er Katrín Jakobsdóttir. Í ljósi mikillar þenslu á vinnumarkaði, neyðarástands á húsnæðismarkaði, skorti á framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, vaxandi ójöfnuðar og bresta í velferðarkerfinu telja þingmenn Vinstri grænna nauðsynlegt að bregðast strax við til þess að tryggja hér stöðugleika til framtíðar. Meginmarkmið tillögunnar er að stjórnvöld efni til samráðs og móti aðgerðir sem stuðli að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika.

– Tillaga til þingsályktunar um rannsókn á ástæðum og áhrifum fátæktar í íslensku samfélagi. Fyrsti flutningsmaður er Svandís Svavarsdóttir. Fátækt er einhver mesti meinvaldur samfélaga og fréttir sem benda til aukinnar útbreiðslu hennar vekja upp miklar áhyggjur. Þekkja verður umfang og eðli vandamálsins til þess að geta brugðist við á skilvirkan hátt og útrýmt fátækt á Íslandi. Inntak ályktunarinnar er að ríkisstjórn verði falið að gera viðamikla rannsókn á fátækt á Íslandi. Hún svari m.a. hver útbreiðsla fátæktar hérlendis sé miðað við Norðurlöndin, hver hafi verið þróun fátæktar og skipting eftir byggðarlögum. Einnig skuli sjónum beint að áhrifum fátæktar á ólíka þjóðfélagshópa; barnafjölskyldur, einstæða foreldra, innflytjendur og aldraða, og áhrifum hennar á heilsufar og aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Tillaga til þingsályktunar um stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland. Fyrsti flutningsmaður er Katrín Jakobsdóttir. Í tillögunni felst að umhverfis- og auðlindaráðherra marki stefnu og láti gera drög að áætlun um aðgerðir sem miði að því að Ísland verði kolefnishlutlaust í áföngum, í síðasta lagi fyrir árið 2040. Þetta er metnaðarfyllra markmið en Evrópusambandið hefur sett fram, enda getur og á Ísland að vera leiðandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

 

Að auki má finna í málalista þingflokksins nýtt lagafrumvarp um réttarstöðu trans og intersex fólks, móttöku og aðstoð við fylgdarlaus börn á flótta og þingsályktunartillögu um endurskoðun á beitingu Dyflinnarreglugerðarinnar. Lagt er fram mál um frestun á framkvæmd uppreist æru, á meðan endurskoðun lagaumgjörðar fer fram. Einnig má nefna tillögu um að Ísland fullgildi Istanbúl-samninginn um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, og lengingu fæðingarorlofsins í 12 mánuði.

Líkt og áður leggja þingmenn VG áherslu á umhverfismál, t.a.m. með tillögu til þingsályktunar um að Ísland verði kolefnishlutlaust fyrir 2040 og stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Þingsályktunartillaga um að Ísland gerist aðili að nýjum samningi Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum er mikilvægt mál, nú þegar við horfum á aukna kjarnorkuvígvæðingu og -ógn á alþjóðavettvangi.

Tillaga um endurskoðun á lagaumhverfi uppkaupa á landi verður lögð fram að nýju, enda mál sem ekki hefur verið leyst þrátt fyrir að vera reglulega í umræðunni. Vinstri græn lögðu á síðasta þingi fram mál um lækkun kosningaaldurs úr 18 árum í 16 í sveitarstjórnarkosningum. Málið er lagt fram aftur eftir jákvæðar umsagnir víðs vegar að og góðan hljómgrunn í meðförum þingsins á 146. þingi.

 

Þingflokkur VG mun að vanda jafnframt sinna því mikilvæga hlutverki að veita ríkisstjórninni aðhald í stóru og smáu og andæfa hægri stjórn og sveltistefnu. Nýtt þing mun einkennast af átökum um samfélagið, innviði þess, gildi og forgangsröðun. Þingflokkur VG er vel undirbúinn og mun láta til sín taka í öllum málaflokkum.