Framlög til Vinnustaðanámssjóðs falla niður þrátt fyrir fækkun í verknámi

Bjarkey Gunnarsdóttir

Bjarkey Gunnarsdóttir hóf sérstaka umræðu um stöðu verknáms á Alþingi í dag og gerði sérstaklega að umtalsefni að framlög til Vinnustaðanámssjóðs falla niður samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir 2015.

Í ræðu Bjarkeyjar kom fram að þeim nemendum sem ljúka sveinsprófi hefur fækkað undanfarið og fjöldi nemenda á iðnnámsbrautum í framhaldsskólunum hefur dregist saman. Bjarkey benti á þessu sambandi á mikilvægi Vinnustaðanámssjóðs, en hlutverk þess er að veita styrki til fyrirtækja og stofnana vegna vinnustaðanáms og starfsþjálfunar tengdu framhaldsskólanámi. Þá benti hún á að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fallar niður öll framlög til sjóðsins: „Nú ætlar hæstvirtur ráðherra að leggja þennan sjóð niður og lítur á þetta sem tímabundna aðgerð, en það er alveg ljóst af málinu þegar það var samþykkt að það var ekki hugsað þannig,“ sagði Bjarkey.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra svaraði því ekki hvernig skuli tryggja aðgang að verknámi án framlaga til Vinnustaðanámssjóðs en ítrekaði að ekki stæði til að takmarka aðgang að verknámi. Í seinni ræðu sinni sagði Bjarkey á móti: „Hæstvirtur ráðherra neitar því að einhver þurfi að víkja af því að hann ætlar ekki að takmarka verknámið. Það bara stenst ekki miðað við þær tölur sem fyrir liggja í fjárlagafrumvarpinu.“ Bjarkey endaði ræðu sína á því að hvetja ráðherra til að „setja fjármagn aftur í þennan sjóð því hann styrkir þetta nám sem við öll tölum svo vel um á tyllidögum.“