Framtíðarsýn og samfélagslegt hlutverk skatta

Katrín Jakobsdóttir var málshefjandi í sérstakri umræðu um framtíðarsýn og samfélagslegt hlutverk skatta í dag, fimmtudag, á Alþingi. Til andsvara var fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson.

Katrín sagði meðal annars í upphafsræðu sinni að hún hefði áhuga á að ræða hvort ekki væri þörf á að endurskoða skattkerfið út frá stærri og breiðari sjónarmiðum í takt við samfélagsbreytingar, bæði skattstofnana og svo samspil skattkerfis og bótakerfis; “Þetta er auðvitað sígilt umræðuefni. Þó að stundum sé tilhneiging til að láta eins og skattkerfið sé fyrst og fremst tæknilegt viðfangsefni er það í raun bæði mjög pólitískt og heimspekilegt viðfangsefni því að það felur í sér ákveðinn grunn samfélagsgerðarinnar. Meginhlutverk skattkerfisins er ekki aðeins að tryggja tekjur til að standa undir samneyslu eða grunnþjónustu sem er svo skilgreind með mismunandi hætti eftir því hvers konar stjórnvöld eru við völd á hverjum tíma, lykilatriðið er að grunnþjónustan tryggi farsæld borgaranna. En skattkerfið hefur líka önnur hlutverk, t.d. að þjóna ákveðnum efnahagslegum markmiðum. Margir, þeirra á meðal ég, telja að tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins sé mjög mikilvægt, þ.e. að með ólíkum þrepum sé tryggt að hinir tekju- og efnameiri leggi hlutfallslega meira af mörkum en þeir sem hafa minna milli handa.”

Katrín kallaði líka eftir auknu gagnsæi skattkerfisins með breyttum tímum, frjálsu flæði fólks og fjármagns um heiminn; “…skattstofnarnir ekki lengur staðbundnir, uppbygging fjármálakerfisins hefur skapað möguleika, eins og við höfum rætt hér áður, á óteljandi felustöðum fyrir fjármagn, sem gerir að verkum að þeir hefðbundnu skattstofnar sem við höfum komið á, komum í raun og veru á þegar samfélagið var nútímavætt, endurspegla kannski ekki samfélagið í dag. Það er umhugsunarefni hvernig skattkerfið á þá að endurspegla sem best þetta gagnsæi eða tryggja það sem best.”

Katrín spurði líka um afstöðu fjármálaráðherra til auðlegðarskatts, hvaða mörk ættu að vera á honum, hvort hann væri ekki í raun nauðsynleg jöfnunaraðgerð í ljósi þeirra miklu misskiptingar bæði á Íslandi og á alþjóðavísu þegar ríkasta eina prósentið í heiminum á meira en hin 99 prósentin og á Íslandi eiga ríkustu 10 prósentin sem eiga næstum 3/4 allra auðæva.

Einnig spurði Katrín um tryggingagjaldið sem Bjarni Benediktsson hefur lagt til að verði lækkað og hvort lækkun ógni ekki þeim verkefnum sem tryggingagjaldið á að standa undir, t.d. atvinnuleysistryggingum og fæðingarorlofi og um hugmyndir um skatt á fjármagnsflutingum milli landa líkt og mörg Evrópuríki hafa sammælst um að taka upp.

Hér má lesa upphafsræðu Katrínar Jakobsdóttur

 

Vill ekki eigna – og auðlegðarskatt á Íslandi

Bjarni Benediktsson svaraði spurningum og vangaveltum formanns VG og sagði m.a. vera talsmaður þess að á Íslandi eigi ekki að vera eignarskattar;

“Ég taldi það mikið framfaraskref þegar við afnámum þá á sínum tíma og ég tek eftir því að það er verið að afnema eignarskatta í öðrum löndum. Ég nefni sem dæmi í Noregi þar sem núverandi ríkisstjórn hefur sett það á dagskrá að fella niður eignarskattinn sem þar birtist sem auðlegðarskattur.Ég ætla líka að benda á að þar höfðu menn þó a.m.k. vit á því þegar þeir voru með auðlegðarskatt — þeir eru svo sem með hann enn þá — að undanskilja bróðurpartinn af virði fasteignanna frá skattlagningu, vegna þess að það er gríðarlega íþyngjandi fyrir fólk að þurfa að greiða skatta af fasteignunum.”

Fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins sagði ennfremur að tekjuöflunarkerfin á Íslandi vera allt of flókin og misvísandi skilaboð í kerfunum.

Hér má lesa ræðu fjármálaráðherra

 

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, tók líka þátt í umræðunni og talaði um skattkerfið sem jöfnunartæki og um græna skattlagningu; “Þessir grænu skattar eru hugsaðir til þess að vega upp á móti neikvæðum umhverfisáhrifum. Gott dæmi um slíka ráðstöfun er loftslagssjóður fyrir grænan vöxt sem er hugsaður í þágu grænna verkefna, til að byggja upp græna þróun í samfélaginu. Grænir skattar eru hugsaðir þannig að þeir séu að verulegu leyti eyrnamerktir slíkum verkefnum til að færa hagvöxtinn í áttina að grænni þróun. Það er afar mikilvæg hugsun í þessu samhengi.”

Hér má lesa ræðu Svandísar

 

Viljum við að skattkerfið taki á misskiptingu auðs ?

Í seinni ræðu Katrínar minntist hún á nauðsyn þess að Ísland styrkti enn frekar alþjóðlegt samstarf í skattamálum og spurði svo hvort við sem samfélag værum sátt við misskiptingu auðæfa og hvort við vildum að skattkerfið tæki á þeirri misskiptingu;

“Ég held að við þurfum að takast á við stóru viðfangsefnin, hvort við teljum ásættanlega þá misskiptingu auðs sem er staðreynd í okkar samfélagi eins og í öðrum vestrænum samfélögum; það þýðir ekki bara að horfa á tekjurnar í þeim efnum, við verðum líka að horfa á auðinn. Erum við sátt við þá misskiptingu sem við sjáum á auðæfum í samfélaginu? Viljum við að skattkerfið taki á því með einhverjum hætti? Ég segi já við því líka.”

Hér má lesa seinni ræðu Katrínar

Og hér má horfa á umræðuna alla og lesa ræður viðkomandi þingmanna