Þegar flogið er yfir Evrópu og horft yfir landið má sjá óteljandi aðskilda misrétthyrnda ferhyrninga af skógi og ræktarlandi milli borga og bæja. Allt annað blasir við þegar flogið er yfir hálendi Íslands. Þar er eitt stærsta landsvæði Evrópu sunnan heimskautabaugs sem aldrei hefur verið numið. Við blasa svartir sandar, hvítir jöklar og gróðurvinjar, algjörlega óregluleg í stærð og lögun. Margir tárast yfir þessari sjón og það er sú hrikalega fegurð sem nú er orðin auðlind sem veldur því að hingað koma ferðamenn sem leita að einstakri upplifun; ósnortinni náttúru sem maðurinn hefur enn ekki hróflað við.

Auðlind er þetta vitaskuld; auðlindir eru ekki einungis fiskur í sjónum eða raforka sem hægt er að framleiða með fallvötnum og jarðhita. Hið ósnortna hálendi er auðlind í sjálfu sér sem okkur ber skylda til að vernda fyrir frekari ágangi manna og varðveita í þágu fjölbreytni náttúrunnar og sem slíkt skilar það líka miklum efnahagslegum ávinningi sem áfangastaður ferðamanna sem sækja í þessu einstöku upplifun. Hinn efnahagslegi ávinningur er þó aðeins aukaafurð: Mestu skiptir að ósnortin náttúra hefur gildi í sjálfri sér, óháð mannlegum mælikvörðum.

Náttúruverndarsamtök og útivistarfélög hafa nú sameinast um að setja fram skýra kröfu um friðun miðhálendisins og hélt þessi hópur fjölmennan fund á fimmtudaginn var um það mál. Sá fundur vakti mér vonir um að hægt verði að ná samstöðu um þetta risavaxna mál. Fjölbreyttur hópur fólks mætti þar til að sameinast um þessa kröfu. En það er brýnt að vinna henni fylgi.

Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis hefur nú lagt fram tillögu um að fjórir virkjunarmöguleikar verði færðir úr biðflokki í nýtingarflokk. Einn þeirra, Skrokkalda, er beinlínis inni á hálendinu. Hugmyndir eru uppi um að lagðir verði upphækkaðir vegir yfir Kjöl og Sprengisand og vitaskuld má reikna með að á eftir komi öll sú þjónusta sem venjulega fylgir þjóðvegum. Þá er raflína yfir Sprengisand á teikniborðinu sem myndi kljúfa hálendið í tvennt og þar með er rofin sú skynjun að vera í ósnortnu umhverfi. Í hugmyndabanka orkufyrirtækjanna má finna að minnsta kosti fimmtán hugmyndir að virkjunum og uppistöðulónum á hálendinu. Það sýnir skilningsleysi á mikilvægi auðlindarinnar í núverandi mynd.

Þeir sem horfa til framtíðar vita að stærsta auðlind Íslendinga er hugvitið. Ef byggja á upp fjölbreytt atvinnulíf til framtíðar þarf að fjölga stoðum efnahagslífsins og fjárfesta meira í rannsóknum, nýsköpun og skapandi greinum. Einnig þarf að renna styrkari stoðum undir stærstu útflutningsgrein okkar um þessar mundir, ferðaþjónustuna, með því að fjárfesta í náttúruvernd og tryggja að náttúruperlur okkar haldist óskaddaðar þrátt fyrir aukna umferð ferðafólks. Fjölbreytt atvinnustefna skilar stöðugra efnahagslífi og gengur ekki á náttúruna eins og stóriðjustefnan sem því miður hefur verið nánast einráð í hugum stjórnvalda og orkufyrirtækjanna. Það er kominn tími til að setja hana á hilluna og fallast á fjölbreytt atvinnulíf og traustur efnahagur fer vel saman við náttúruvernd.

Þess vegna segjum við Vinstri-græn: Friðum miðhálendið, ekki spurning!

Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir
Formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs