Frjálshyggjutilraun í fjárlagafrumvarpi

„Þetta frumvarp boðar nýja frjálshyggjutilraun í íslenskum stjórnmálum,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir 2015. Í fjárlagafrumvarpinu birtast áform ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um að láta velferðarsamfélagið mæta afgangi, en draga úr samneyslunni úr 28% í 24,5% af vergri þjóðarframleiðslu á fjórum árum. „Þetta þýðir í raun að Ísland færist úr flokki með Norðurlöndunum, þar sem samneyslan er alls staðar um eða yfir 30%, yfir í hóp þjóða þar sem velferðarkerfið er mjög veikt,“ segir Katrín og bætir við: „Með þessu er í raun verið að boða róttækar samfélagsbreytingar í anda stefnu sem ég hélt að væri fullreynd hér á landi og mun skerða kjör almennings verulega. Því miður virðist vera búið að opna aftur tilraunastofu um nýfrjálshyggjuna.“

Skattatilfærslur hygli ekki hátekjufólki

Þingflokkur Vinstri grænna bendir á að fjárlagafrumvarpið boðar einnig mikinn tilflutning á skattbyrðinni frá útgerðarfyrirtækjum og stóreignafólki til almennings í landinu. Samtals verður ríkissjóður af 12 milljörðum í niðurfellingu auðlegðarskatts og lækkun veiðigjalda á árinu á sama tíma og virðisaukaskattur á mat, bækur og ýmsar nauðsynjar er næstum tvöfaldaður. Þetta mun koma verst við lágtekjuhópa og venjulegar fjölskyldur, og alls óljóst hvaða áhrif svokallaðar mótvægisaðgerðir hafa í því sambandi. Þingflokkurinn mun fara fram á úttekt á áhrifum þessara skattabreytinga á ólíka tekjuhópa og krefjast þess að ekki verði ráðist í neinar skattabreytingar sem hygla hátekjuhópum á kostnað tekjulægri hópa.“

Ábyrgðarlaus ríkisfjármálastefna

Þingflokkurinn hefur einnig áhyggjur af litlum metnaði til að bæta áfram afkomu ríkissjóðs frá þeirri síbatnandi stöðu sem núverandi ríkisstjórn tók í arf frá ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar. Samkvæmt frumvarpinu verður tekjuafgangur ríkissjóðs aðeins 0,2% af vergri þjóðarframleiðslu árið 2015 og 0,3% árið 2016, en fyrri áætlanir höfðu gert ráð fyrir margfalt meiri tekjuafgangi. „Tekjuafgangurinn er í raun étinn upp af niðurfellingu auðlegðarskatts, stórlækkun veiðigjalda og þessari ómarkvissu skuldaniðurfellingu ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er ekki hægt að lækka skuldir eins og gert hafði verið ráð fyrir,“ segir Katrín. „Þetta er náttúrulega óábyrg stefna.“