Frumkvæði og árangur í norrænni samvinnu

 

Ísland er sérstætt og gott land til eldfjallarannsókna og eldfjallafræðslu. Þess vegna eru jarðvísindi meðal þeirra vísindagreina sem hæst ber innan lands og utan. Norræna eldfjallasetrið (NE) hefur starfað hér á landi í rúm 40 ár, getið sér gott orð í margvíslegum og gagnlegum rannsóknum, eflt norræna samvinnu og sjálfsmynd, og menntað rúmlega 150 unga vísindamenn. NE kristallar mikilvæga sérþekkingu í eldfjallafræðum til gagns fyrir okkur og aðrar þjóðir.

Fyrir skömmu ákvað Norræna ráðherranefndin að leggja stofnunina, sem þegar nýtur 70-80 Mkr árlegs stuðnings íslenska ríkisins, niður á árabilinu 2020-2023, og um leið NIAS (Asíurannsóknastofnun), NORDITA (kjarneðlisfræðisstofnun), Nifs (hafréttarstofnun) sem starfa á hinum Norðurlöndunum.

Föstu norrænu fjármagni (23 M Dkr/ár) til stofnananna fjögurra, sem allar fá háa einkun Eftirlitsstofnunar Norðurlandaráðs, átti að beina til samkeppnissjóðsins NordForsk. Árlegt framlag til hans nemur um 100 M Dkr. Fá rök sáust samt fyrir því að beina öllu rannsóknafé í einn samkeppnissjóð.

Fljótlega tók að bera á mótmælum gegn þessari ákvörðun. Hér var nýbúið að auka framlag á fjárlögum 2018 til NE, auk hærra framlags frá HÍ, til að viðhalda rekstri a.m.k í eitt ár. Ég beitti mér þá fyrir því, í samvinnu við þingmenn í Íslandsdeild  Norðurlandaráðs, að hún ynni að því að fá hnekkt ákvörðun ráðherranefndarinnar sem þá þegar hafði verð lögð fyrir ráðið til skoðunar og atkvæðagreiðslu. Fékk góðan íslenskan ráðgjafa, þaulkunnugan norrænu samstarfi, í lið með okkur. Fulltrúar íslensku flokkanna í þremur flokkahópum á þemaþingi ráðsins á Akureyri nú nýverið unnu af kappi að því að fullmóta tillögu um frestun á niðurlagningu stofnanna og endurskoðun helstu málshliða. Þar voru þingmenn VG, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Steinunn Þóra Árnadóttir afar virk í vinstri-græna hópnum. Ágæt samstaða varð til innan og á milli hópanna. Svo fór að ekki var mælt fyrir tillögu ráðherranefndarinnar og hún einfaldlega dregin til baka.

Þar með hafa stofnanirnar komist í skjól um hríð. Endurskoðun og greiningar taka nú við. Þá verður að sjá til þess að farsælar rannsóknastofnanir og stór, norrænn rannsóknasjóður geti starfað hlið við hlið, líkt og í aðildarlöndunum.

Ari Trausti Guðmundsson. 

Þingmaður VG í Suðurkjördæmi.