Frumvarp um glufur í skattalöggjöfinni fast í ráðuneyti

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um skattaundanskot á Alþingi í dag.

Katrín benti á að hún hefði lagt fram frumvarp á síðasta þingi til að loka glufum í skattalöggjöf en þar er tekið á svokallaðri þunnri eiginfjármögnun. Í þunnri eiginfjármögnun felst að fyrirtæki láni tengdum félögum, s.s. dótturfélagi, í þeim tilgangi að komast hjá því að greiða skatta af hagnaði í því landi sem dótturfélagið starfar í. „Þetta er eitthvað sem mörg ríki heims hafa verið að taka á, OECD hefur verið að benda á að þarna þurfi ríki heimsins að samræma sína löggjöf, og það sama hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gert hér á landi.“ Efnahags- og viðskiptanefnd tók öll undir meginefni frumvarpsins á síðasta ári en Katrín benti á að „þetta mál væri hvergi á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar þó að málinu hafi verið vísað til ríkisstjórnarinnar“. Katrín spurði forsætisráðherra hvort hann teldi ekki rétt að málinu yrði lokið og það lagt fram í vor.

Í ræðu sinni sagði forsætisráðherra mikilvægt að hámarka skatttekjur af starfsemi hér á landi en svaraði forsætisráðherra því hins vegar ekki hvort til stæði að leggja frumvarpið fram á vorþinginu. Katrín ítrekaði spurningu sína um hvað forsætisráðherra fyndist um að mál hennar um þunna eiginfjármögnun sæti fast í fjármálaráðuneytinu „í ljósi þess að ég hefði talið að hér ætti að ríkja þverpólitísk sátt um að það væri forgangsatriði að búa okkar skattkerfi þannig úr garði að þar leggi allir sitt af mörkum.“ Forsætisráðherra sagðist sammála þessari meginhugsun en gaf ekki frekari svör.