Frumvarp um heilsugæslu í framhaldsskólum

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og fimm þingmenn úr Samfylkingu, Bjartri framtíð og Pírötum hafa lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla. Nái frumvarpið samþykki munu framhaldsskólanemar eiga kost á gjaldfrjálsri heilsugæslu í skólum um allt land.

Víða um heim, m.a. á Norðurlöndum, þykir sjálfsagt að ungmenni hafi aðgang að heilsugæslu í skólunum. Hér er þessu öfugt farið þrátt fyrir að sérfræðingar séu flestir á einu máli um mikilvægi gjaldfrjálsrar þjónustu af þessu tagi:

  • Í fyrsta lagi þarf ekki að orðlengja um að framhaldsskólanemum er það mikilvægt að fá bót meina sinna eins fljótt og unnt er. Í skólaheilsugæslu ætti ungt fólk að eiga greiða leið að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu sem miðast við þarfir þeirra. Fátt er betur til þess fallið að auka ná til þeirra sem af einhverjum ástæðum skirrast við að leita sér aðstoðar.
  • Í öðru lagi leggur leggur ungt fólk grunninn að fullorðinsævi sinni á framhaldsskólaárunum og temur sér lífsstíl til framtíðar. Skólaheilsugæsla getur því stuðlað að heilbrigðari lífsstíl til framtíðar fyrir þá sem kjósa að nýta sér þjónustuna.

Heilsugæsla á skólastað stuðlar að hvoru tveggja, skjótri hjálp við sjúkleika og heilsueflingu, og eflir þannig lífsgæði framhaldsskólanema í bráð og lengd.