Fundur fólksins á Akureyri um helgina

Þingmenn og sveitastjórnarfulltrúar Vinstri grænna taka þátt í Fundi fólksins sem fram fer í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri um helgina.  Ung Vinstri Græn,  Andrés Ingi Jónsson, Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé,  Sóley Björk Stefánsdóttir og fleiri taka þátt í spennandi dagskrá lýðræðishátíðarinnar, sem hægt að kynna sér hér.

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður, tekur þátt í pallborði á vegum Norræna félagsins sem ber yfirskriftina Eru Norðurlönd boðberar friðar og framfara á Norðurslóðum? Ari Trausti er formaður Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál. Viðburðurinn hefst klukkan 12:00 á laugardag í salnum Nanna í Menningarhúsinu Hofi. Fundarstjóri er Bogi Ágústsson.

Ung vinstri græn standa fyrir málþingi um lækkun kosningaaldurs og kosningaþátttöku ungs fólks. Ungliðahreyfingar fleiri stjórnmálaflokka taka þátt í viðburðinum. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður og einn af flutningsmönnum frumvarps VG um lækkun kosningaaldurs í sveitastjórnakosningum niður í 16 ár, kynnir efni þess stuttlega. Viðburðurinn hefst klukkan 13:00 í salnum Hamraborg í Hofi.