Fúsk og auðmannadekur ríkisstjórnarinnar

Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna sagði á Alþingi í dag að sér finnist vera fúskbragur á aðgerðum ríkisstjórnarinnar í skuldamálum. Steingrímur J. Sigfússon fulltrúi flokksins í efnahags- og viðskiptanefnd sagði að komið væri í ljós að kostnaðurinn við aðgerðinnar yrði að minnsta kosti 150 milljarðar króna sem er mun meira en ríkisstjórnin hafi gefið upp. Hann benti jafnframt á að um 400 heimili sem greiða auðlegðarskatt muni fá skuldarniðurfellingu frá ríkisstjórninni til viðbótar við niðurfellingu auðlegðarskattsins.

Kappið að bera ríkisstjórnina ofurliði

„Mér finnst einhver fúskbragur á þessu.“ sagði Katrín og bætti við: „Tilfinning mín er að kappsemi manna við að ná þessu máli í gegn dragi úr forsjálninni og menn hafi gleymt því að kapp er best með forsjá.“ Hún nefndi sem dæmi að þegar Ríkisskattstjóri, sem á að framkvæma aðgerðirnar, vari við því að ekki verði hægt að hefja framkvæmdina 15. maí eins og ríkisstjórnin hafi gefið út yppti menn bara öxlum. „Þá stígur bara hæstvirtur forsætisráðherra fram og segir: Jú víst!“ sagði Katrín og bætti við „En á góðum pítsustað eru menn með hráefnin á borðinu áður en þeir byrja að baka og vita um það bil hver niðurstaðan verður.“

Af 150 milljarða kostnaði fara 72 í lækkun skulda

Steingrímur, sem er fulltrúi Vinstri grænna í efnahags- og viðskiptanefnd, sem hefur frumvörp ríkisstjórnarinnar um skuldaniðurfellingar til umfjöllunar sagði að í starfi nefndarinnar hefðu komið fram upplýsingar sem sýndu að kostnaður vegna aðgerðanna yrði mun meiri fyrir ríki og sveitarfélög en látið hefði verið í veðri vaka af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hann sagði ljóst að heildarkostnaðurinn yrði að minnsta kosti 150 milljarðar króna, en þar af myndu aðeins um 72 milljarðar fara í að lækka höfuðstól húsnæðislána.

Steingrímur sagði að samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Íbúðalánasjóði væri ljóst að kostnaður ríkisins vegna tekjutaps yrði allt að 43 milljarðar og sveitarfélaganna allt að 21 milljarður. Viðbótarkostnaður Íbúðalánasjóðs gæti numið allt að 24 milljörðum króna. „Eins og þetta hafi ekki verið nóg. Þá tók meirihlutinn sig til í gær og jók umfang aðgerðanna varðandi séreignarsparnaðinn,“ sagði Steingrímur og bætti við: „Samt virðist meirihlutinn ætla sér að afgreiða þessi mál án þess að nokkurt nýtt kostnaðarmat verði gert og það held ég að sé ekki boðlegt.“

Ríkasta fólkið fær skuldaniðurfellingu frá ríkisstjórninni

„Svo koma stjórnarliðar og segja að það sé algjör misskilningur að það sé verið að hygla tekjuhærra fólki. Bæði frumvörpin hafa það í eðli sínu að þeim mun hærri tekjur eða meiri skuldir, þeim mun meira fá þeir út úr aðgerðunum.“ sagði Steingrímur og hélt áfram: „Í morgun fengum við gögn frá Ríkisskattstjóra sem sýna að yfir fjögur hundruð einstaklingar sem greiða auðlegðarskatt munu fá niðurfelld lán. Um leið og þeir fá það frá ríkisstjórninni að auðglegðarskatturinn verður felldur niður.“ Steingrímur segir ljóst að aðgerðir hygli og skapi auð hjá ríkasta fólkinu á Íslandi.

Ekki til peningar til að bæta heilbrigðisþjónustu

Katrín velti fyrir sér forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Hún benti á að heilbrigðisráðherra hafi í vikunni sagt að ríkið hafi ekki efni á að byggja nýjan Landspítala fyrir 60 milljarða króna. „Nýr spítali sem mun bæði stórbæta heilbrigðisþjónustu allra landsmanna og auka hagræðingu í rekstri spítalans,“ sagði Katrín og bætti við: „Þegar þessum valkostum er stillt upp, þá sannfærist ég enn frekar um að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar stjórnist af kappi frekar en forsjá, stjórnist af skammtímahagsmunum frekar en langtímahagsmunum þjóðarinnar allrar.“