Gagnrýnir fjársvelti Landhelgisgæslunnar og þyrluskutl forsætisráðherra

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, vakti athygli á bágri fjárhagsstöðu Landhelgisgæslunnar í umræðum um störf þingsins í dag. „Landhelgisgæslan er með viðvarandi aðhaldskröfu á sínum rekstri og það hlýtur að vera á ábyrgð fjármálaráðherra að tryggja gæslunni fjármagn til reksturs. 95 milljónar króna aðhaldskrafa er ekkert náttúrulögmál,“ sagði Lilja Rafney og bætti við: „Nú ætti að vera komið borð fyrir báru til að auka fjárveitingar til þessa málaflokks.“

Lilja Rafney benti á að ekki hafi verið hægt að senda strax fullkomnasta varðskip landsins á staðinn þegar flutningaskipið Akrafell strandaði við Reyðarfjörð fyrr í þessum mánuði. „Fyrr á árum voru tvö til þrjú varðskip til taks en nú er aðeins ein áhöfn í vinnu í einu,“ sagði Lilja Rafney. Þá gagnrýndi Lilja Rafney að eftir útsýnisflug Landhelgisgæslunnar yfir gosstöðvarnar hefði forsætisráðherra „látið Landhelgisgæsluna skutla sér fyrst á sveitahótel í mat, og síðan í starfsmannaferð á vegum ráðuneytisins úti í Vestmannaeyjum. Mér finnst það ekki við hæfi þegar Landhelgisgæslan getur ekki sinnt hlutverki sínu sem skyldi sökum fjárskorts.“