,

Gerum betur – Landsfundur VG settur

„Gerum betur er slagorð okkar Vinstri grænna í þessum kosningum; því það þarf að gera svo miklu betur á svo mörgum sviðum og við treystum okkur til þess,“ sagði Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna í setningarræðu landsfundar. Á fjórða hundrað eru saman komin á landsfundinum sem haldin eru um helgina á Grand hóteli í Reykjavík.

Katrín sagði  stóra verkefni næstu ríkisstjórnar vera að koma á alvöru stöðugleika fyrir fólkið í landinu. „Og þegar ég segi alvöru stöðugleiki, þá á ég við öfluga uppbyggingu fyrir atvinnulífið og byggðirnar, menntakerfið og heilbrigðisþjónustuna, aldraða og öryrkja og svo mætti lengi telja. Það er enginn stöðugleiki fólginn í því að láta innviði landsins mæta afgangi í miðju góðæri. En það er nú samt einmitt það sem síðustu tvær ríkisstjórnir hafa gert.

Gerum betur.“

Katrín minnti á að flokkarnir þrír sem mynda fráfarandi ríkisstjórn hafi sýnt fyrirætlanir sínar í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram þremur dögum áður en stjórnin sprakk. Þar hafi stjórnarflokkarnir ekki staðið við loforð um að stórauka framlög til heilbrigðismála, sýnt algjört metnaðarleysi í menntamálum og boðað þá eina lausn í samgöngumálum að leggja á vegtolla.

Þá áréttaði Katrín að Ísland geti tekið á móti miklu fleira flóttafólki og innflytjendum. „Við getum gert miklu betur og leyfum engum að stilla upp innflytjendum og flóttafólki sem andstæðingum einhverra annarra sem eiga undir högg að sækja. Við erum öll saman í þessu samfélagi.”

Smelltu hér til að nálgast ræðu Katrínar Jakobsdóttur í heild sinni.