Gerum samfélagið betra

Katrín Jakobsdóttir segir ábyrgan rekstur ríkissjóðs þurfa að fara saman við ábyrgan rekstur samfélagsins. Þetta sagði hún í umræðum á Alþingi í dag um útgjaldaliði fjárlagafrumvarpsins. Hún sagði mikla uppsafnaða þörf fyrir opinberar fjárfestingar og aukin útgjöld ríkissjóðs í ýmsum mikilvægum málaflokkum, og að tillögur fjárlagafrumvarps starfsstjórnarinnar mættu ekki þeirri þörf.

“Þegar rætt er um ábyrgan rekstur á ríkissjóði verður það að fara saman við ábyrgan rekstur á samfélagi. Við erum ekki hér út af ríkissjóði. Hann er hér út af okkur. Hann á að vera okkar tæki til að gera þetta samfélag betra,” sagði Katrín ennfremur.

Katrín sagði tekjustofna ríkisins hafa verið veikta undanfarin ár og samtímis hafi átt sér stað aukin samþjöppun auðs. Hún sagði átökin í stjórnmálum snúast um það hvernig tryggja eigi tekjur til að standa undir velferðarkerfinu, háskólunum og sjúkrahúsunum. Um það snúist pólitík með jöfnuð að leiðarljósi og þá pólitík sé ekki að finna í frumvarpi fjármálaráðherra.

Hægt er að nálgast ræðu og andsvör Katrínar á vef Alþingis.