Gildi lýðræðisríkja í hættu

Tugir milljóna fólks eru á flótta í heiminum um þessar mundir. Í Evrópu er fátt um annað talað en hvernig megi leysa vandann sameiginlega en því miður virðast afleiðingarnar vera þær að ólík ríki keppast við að loka landamærum sínum. Meira að segja á Norðurlöndunum hafa sterkustu stoðir norræns samstarfs, frjáls för og vegabréfafrelsi, riðað til falls. Áhrif öfga hægriflokka í norrænum ríkisstjórnum gera flóttamönnum erfiðara að nýta rétt sinn til að sækja um hæli og víða í Evrópu má sjá einstök ríki girða sig af, jafnvel með því að reisa aðskilnaðarmúra.

Nú nýlega komst á viðkvæmt vopnahlé í Sýrlandi og að sjálfsögðu má vona að það leiði af sér varanlegri lausnir, raunverulegt samninga- og friðarferli, til að finna varanlega pólitíska lausn á þeim átökunum. Hins vegar er full ástæða til að hafa áhyggjur í ljósi þess að stríðið í Sýrlandi hefur staðið síðan 2011 og enginn raunverulegur pólitískur þrýstingur hefur verið á lausn mála. Viðbrögð alþjóðasamfélagsins við stríðinu hafa einkennst af máttleysi og sama má segja um viðbrögð við flóttamannastrauminum.

Um helgina funduðu fulltrúar evrópskra vinstriflokka hér á Íslandi í boði Vinstri-grænna. Fulltrúi Syriza, vinstriflokksins í Grikklandi, var þungorður um stöðuna í Grikklandi og talaði um nauðsyn þess að evrópsk ríki vinni saman að lausn. Hins vegar lítur ástandið ekki vel út núna. Nágrannar Grikkja virðast vera á þeirri vegferð að loka sínum landamærum. Hræðilegar fréttir berast af því hvernig fólki í neyð er bægt frá landamærum. Stjórnmálamenn tala jafnvel fyrir því að flóttamenn séu réttdræpir.

Það er ljóst að vestræn lýðræðissamfélög sem hafa stolt staðið fyrir gildi á borð við lýðræði, mannréttindi og frjálsa för, eru ekki að bregðast við vandanum sem skyldi. Viðbrögð sumra ríkja í Evrópu hafa beinlínis verið þveröfug. Flóttamannastraumurinn kallar einmitt ekki á aðskilnaðarstefnu og einangrun heldur meiri og öflugri samvinnu en nokkru sinni fyrr. Það er nauðsynlegt að endurskoða fyrirkomulag Dyflinnarreglugerðarinnar og skipta ábyrgð milli móttökulanda á sanngjarnan hátt. Svarið getur ekki verið að sitja hjá meðan flóttamannabúðir Grikklandi, Ítalíu og Makedóníu stækka. Svarið getur ekki verið að loka landamærum þannig að flóttamenn lendi í enn meiri hættu en nú er. Nú þegar hverfur fjöldi flóttafólks og lendir í höndum skipulagðra glæpasamtaka, ekki síst konur og börn.

Ef ekki tekst að finna lausn er gildum vestrænna samfélaga ógnað, sjálfri mennskunni er ógnað. Lausnin verður að fela í sér raunverulega pólitíska lausn á átökunum í Sýrlandi.  Í framhaldinu þarf að sameinast um aukna þróunaraðstoð til lengri tíma en líka þurfa ríkari lönd að standa saman að sérstakri neyðaraðstoð ef friðarsamkomulag næst til að byggja upp innviði á þessu svæði. Þar með er ekki sagt að allt verði leyst því víða um heim er ófriðvænlegt og ekki ólíklegt að fólk haldi áfram að vera á flótta víða um heim. En við megum ekki gleyma þeim kjarna sem vestrænt lýðræði byggist á: Að við berum virðingu fyrir manngildinu óháð þjóðerni og það er beinlínis skylda okkar að vinna að lausnum sem samrýmast þeim mannréttindasáttmálum sem við höfum komið okkur saman um á vettvangi alþjóðasamfélagsins.

Katrín Jakobsdóttir