Góð heilbrigðisþjónusta fyrir alla óháð búsetu

Gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu ræður miklu um búsetu fólks. Gildir það jafnt um börn og barnafólk sem og eldri borgara, sem á efri árum þurfa að búa sem næst góðri læknisþjónustu.
Nýkjörinn forseti lagði áherslu á heilbrigðisþjónustu fyrir alla óháð búsetu í innsetningarræðu sinni.
Undirskriftasöfnunin- Endurreisum heilbrigðiskerfið – þar sem tæp 87 þús manns hafa ritað nafn sitt undir sýnir ótvírætt að landsmenn vilja setja heilbrigðismálin í forgang.
Það skiptir máli fyrir alla landsmenn að góð sérhæfð læknisþjónusta á samfélagslegum grunni sé til staðar á þjóðarsjúkrahúsi í Reykjavík, sem allir landsmenn geta gengið að.
Nærþjónustan er ekki síður mikilvæg, sem felst í því að geta sótt þjónustu og aðstoð með hægum hætti frá sínu heimili. Hér er bæði um að ræða skjóta úrlausn ef um slys eða óhöpp ber að höndum sem og reglubundna þjónustu vegna langtíma meðferðar. Þetta eru mál sem brenna mjög á fólki á landsbyggðinni sem þarf oft að fara langar vegalengdir til þess að sækja þjónustu sem flestir landsmenn telja sjálfsagða.
Þjónustan heima í héraði
Niðuurskurður síðustu ára hefur víða bitnað á heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Íbúar stórra sem smárra byggðarlaga hafa mátt sjá á bak heilu þjónustusviðunum af heimavettvangi. Raunar virðist einnig mega kenna um víðtækum og ómarkvissum skipulagsbreytingum á landsvísu þar sem stofnanir hafa verið sameinaðar yfir heilu landshlutana og deildunum hagrætt burt úr héruðunum. Við það hafa samfélögin einnig misst góða íbúa og vel menntað og hæft starfsfólk.
Í þeirri umræðu em nú fer fram er mikilvægt að endurskoða og meta upp á nýtt heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni og finna leiðir til að styrkja hana á ný og treysta öryggi hennar og gæði fyrir íbúana. Standa þarf vörð um heilbrigðisstofnanirnar, sjúkrahúsin og öldrunarþjónustuna.
Áður var stjórnum heilbrigðisstofnana ætlað að vera samráðsvetvangur fyrir áherslur heimafólks og heilbrigðisyfirvalda. Með lögum frá 2003 voru sjúkrahússtjórnirnar lagðar niður og skorið á tengsl og aðkomu heimamanna að stjórnun þessara mikilvægu þjónustustofnana. Hugtakinu þjónusta var breytt í rekstur og innleitt kaup og sala á heilbrigðisþjónustu og önnur lögmál hins frjálsa markaðar.
En þrátt fyrir aukna harðneskju markaðshyggjunnar er það þó áfram umhyggja, hlýja og nánd heilbrigðisstarfsfólksins sem skiptir sjúklinginn hvað mestu máli. Sú hlýja er ríkulega veitt af því góða fólki sem vinnur í heilbrigðisþjónustunni. En þolmörkum hennar og starfsfólksins er einnig takmörk sett og álagið illbærilegt eins og komið hefur rækilega fram i umræðunni undanfarnar vikur og misseri.
Dýrt að sækja allt suður
Nýtt greiðsluþáttökukerfi almennings fyrir heilbrigðisþjónustu var samþykkt á alþingi sl. vor og tekur gildi í febrúar á næsta ári. Markmið breytinganna er að setja hámark á greiðslu einstaklings fyrir heilbrigðisþjónustu og gengur hún nokkuð lengra en afsláttarkerfið sem er í gildi nú.
Teknir eru fleiri þættir inn eins og talþjálfun, sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun. Það er allt saman gott og blessað en ákvörðun um greiðsluþakið fylgdu engir nýir peningar heldur átti það að nást með tilfærslum milli sjúklinganna og annarra notenda heilbrigðiskerfisins sjálfs. Kerfisbreytingin getur því leitt til hækkunar á komum til sérfræðinga og þýðir í raun stóraukna gjaldtöku á þeim sem fara sjaldan til læknis.
Greiðsluþakið átti fyrst að vera 95 þúsund en ráðherra gaf vilyrði fyrir því að það gæti farið niður í 50 þúsund.
Inni í þessu greiðsluþaki er ekki kostnaður vegna lyfja, sálfræðiþjónustu, tannlækningar, hjálpartæki eða ferðir og dvalakostnaður vegna heilbrigðisþjónustu en þetta er kostnaður sem getur hlaupið á tugum eða hundruðum þúsunda. Samdráttur í framboði á heilbrigðisþjónustu í heimabyggð og sérhæfðri læknisaðstoð ásamt nýjum lögum sjúkratrygginga getur því lagst með auknum þunga á íbúa landsbyggðarinnar. Í greinargerð með frumvarpinu eða umsögnum sem bárust er hvergi minnst á hvernig þessi kerfisbreyting kemur við landsbyggðarfólk.
Jafnrétti óháð búsetu
Það er ærið fyrirtæki og því fylgir mikli kostnaður hjá fólki á landsbyggðinni að sækja æ stærri hluta af heilbrigðisþjónustu sinni til Reykjavíkur. Ferðakostnaður, tími, vinnutap, dvalarkostnaður – allt leggst þetta með auknum þunga t.d. fyrir barnafólk og þá sem eru með litlar ráðstöfunartekjur. Allir skulu þó eiga sama rétt til þjónustu á sömu kjörum óháð búsetu bæði samkvæmt stjórnarskrá og lögum um heilbrigðisþjónustu.
Einkavæðing í heilbrigðisþjónustunni mun enn auka mun á þjónustunni milli landsbyggðar og stórþéttbýlisins
Mikilvægt er að Íslendingar geti byggt upp þá bestu þjónustu sem völ er á sem veitt er af velmenntuðu og hæfu starfsfólki. Víða á landsbyggðinni er það hinsvegar æ meir spurning hvort þjónustan er til staðar eða ekki og hvort íbúunum er gert kleift að sækja sér þá sérhæfðu þjónustu sem þeir þurfa á að halda. Það vita allir sem hafa reynt á eigin skinni að gott aðgengi að heilbrigðisþjónusta er forsenda fyrir sterkri byggð um landið allt.
Bjarni Jónsson
Sveitarstjórnarfulltrúi VG í Skagafirði