Góðar fréttir 2030

Hvernig viljum við að heimurinn líti út árið 2030? Það er sú spurning sem Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna leitast við að svara en þau voru samþykkt af öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna árið 2015. Markmiðin gilda til 2030 og snúast um ólík svið samfélagsins. Þau eiga það þó sammerkt að byggja á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar þar sem jafnvægi ríkir milli umhverfis, efnahags og samfélags og ekki er gengið á tækifæri komandi kynslóða.

Einstök markmið snúast til að mynda um að tryggja menntun fyrir okkur öll, stuðla að heilsu og vellíðan, útrýma fátækt og hungri, auka jöfnuð, stuðla að ábyrgri neyslu og sjálfbærri orkunotkun og tryggja jafnrétti kynjanna. Markmiðin eiga að leiða til framfara á heimsvísu með almannahagsmuni að leiðarljósi. Til að vel takist til með slíkt verkefni þurfum við öll að taka þátt. Stjórnvöld leiða þessa vinnu hér á landi en Heimsmarkmiðin eru mikilvægur þáttur í stefnumótun bæði forsætisráðuneytis og utanríkisráðuneytis. Stjórnvöld eru þó einungis ein stoð af mörgum. Mikilvægt er að stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök kynni sér markmiðin og tileinki sér þau í starfsemi sinni.

Mörgum okkar finnst 2030 enn ansi fjarri í tíma og vissulega getur margt gerst þangað til. Þá verða ungmenni dagsins í dag líklega við stjórnvölinn og þess vegna leggjum við sérstaka áherslu á að ungmenni eigi sterka rödd við innleiðingu Heimsmarkmiðanna. Ég hef trú á að raddir ungs fólks verði stjórnvöldum í senn mikilvægur stuðningur og aðhald í þessu verkefni. Á næstu dögum verður skipað í ungmennaráð Heimsmarkmiðanna sem mun fá fræðslu um markmiðin og vinna síðan að því í framhaldinu að vekja athygli á málinu hér innanlands.

Ég hvet okkur öll til að taka höndum saman, kynna okkur Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og leggja okkar lóð á vogarskálarnar. Flytjum góðar fréttir árið 2030.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.