Göngum fyrir réttlátt samfélag.

 

Í dag fögnum við baráttudegi verkalýðsins á þann eina hátt sem hægt er: Með því að halda áfram að berjast fyrir vinnandi fólk. Sú barátta snýst ekki aðeins um krónurnar í launaumslaginu heldur um samfélagið allt og hvernig við viljum að það þróist til hagsbóta fyrir almenning. Þar er algjört lykilatriði að stuðla að auknum jöfnuði.

Því miður hafa gerðir síðustu og núverandi ríkisstjórnar ekki verið til þess fallnar að auka jöfnuð í samfélaginu heldur þvert á móti. Skattabreytingar síðustu ríkisstjórnar hafa margar hverjar létt skattbyrði þeirra ríkustu en þyngt hana hjá þeim sem ekki mega  við því. Hækkun matarskattsins kom sér verst fyrir tekjulágar fjölskyldur en það kom ríkasta fólkinu best þegar auðlegðarskatturinn var ekki framlengdur rétt eins lækkun veiðigjalda kom sér best fyrir stórútgerðina. Allt hefur þetta unnið gegn jöfnuði og aukið misskiptingu.

Sú ríkisstjórn sem nú er við völd keyrir enn harðari niðurskurðarstefnu. Ný fjármálaáætlun er atlaga að velferðarsamfélaginu. Blindri trú á skattalækkanir er fylgt í hvívetna, þvert á viðvaranir hagfræðinga og kemur í veg fyrir nauðsynlega uppbyggingu í heilbrigðiskerfi, velferðarkerfi og menntakerfi.

Í dag verðum við að tala skýrt um það hvernig við getum sótt fram í þeim málum sem ríkisstjórnin vanrækir. Hvernig við getum búið til betra samfélag fyrir allan almenning.

Við þurfum að endurskipuleggja skattkerfið frá grunni. Hin raunverulega misskipting birtist í því hvernig auðæfin dreifast. Á Íslandi eru það ríkustu tíu prósentin sem eiga þrjá fjórðu alls auðs. Þess vegna þarf að endurskoða hvernig við skattleggjum fjármagnstekjur og skattleggja auð yfir ákveðnum mörkum. Ísland á að vera fremst í flokki í alþjóðlegu samstarfi ríkja um slíka skattlagningu. Það á að hafa framsækið þrepaskipt tekjuskattkerfi sem tekur líka til fjármagnstekna, þar sem lægstu launum er hlíft. Það á ekki að taka upp eitt virðisaukaskattsþrep eins og ríkisstjórnin boðar því að slík skattlagning leggst þyngst á efnaminni fjölskyldur. Og að sjálfsögðu þarf að tryggja að arðurinn af auðlindum þessa lands renni með sanngjörnum hætti til þjóðarinnar.

Við þurfum að endurreisa velferðarkerfið. Það er okkar sameiginlega verkefni; að reka öflugt heilbrigðiskerfi þar sem sjúklingar þurfa ekki að bæta fjárhagsáhyggjum ofan á veikindi vegna of hárrar greiðsluþátttöku. Við þurfum ekki tvöfalt heilbrigðiskerfi sem nú er í fæðingu á bak við þokukenndan málflutning heilbrigðisráðherra sem virðist ætla að firra sig ábyrgð á því að einkafyrirtæki rekur nú sjúkrahúsþjónustu þar sem hægt er að borga sig fram fyrir í röðinni.

Við þurfum að tryggja félagsleg réttindi.Við þurfum að tryggja betri umgjörð um vinnumarkaðinn, til dæmis með skýrum lögum um keðjuábyrgð – frumvarp núverandi félagsmálaráðherra dugir einfaldlega ekki til. Við eigum ekki að stytta tímabil atvinnuleysisbóta, fremur eigum við að huga að hækkun bóta og lengra tímabili.

Við verðum að efla menntakerfið okkar og gera öllum kleift að sækja sér menntun óháð aldri. Við eigum að fjölga nemendum en ekki að fækka þeim eins og stefna núverandi ríkisstjórnar miðar að.

Við þurfum að tryggja að hið opinbera axli ábyrgð sína á húsnæðismarkaði því að vandamálin þar eru svo stórvaxin að þau verða ekki leyst með markaðslausnum eins og núverandi stjórnarflokkar virðast telja.

Við eigum að endurskipuleggja fjármálakerfið og til þess þarf að tryggja lagaumgjörð sem styður við heilbrigt fjármálakerfi. Fyrsta skrefið í því gæti verið að banna aflandseignarhald á fjármálafyrirtækjum sem ég hef nú þegar lagt fram frumvarp um.

Við eigum að tryggja viðunandi framfærslu – hvort sem við tölum um laun öryrkja og aldraðra, lágmarkslaun eða atvinnuleysisbætur. Það er algjörlega óviðunandi að á þeim tímum þar sem um fátt annað er talað en efnahagslegan uppgang sitji stórir hópar eftir, langt undir þeim viðmiðum sem stjórnvöld telja eðlileg til að standa undir framfærslu.

Við þurfum raunverulega hugarfarsbreytingu í því hvernig við rekum samfélag. Samfélag er ekki aðeins bókhald sem þarf að stemma af. Samfélag er undirstaða þeirrar velferðar sem við viljum búa fólkinu okkar. Það er sáttmáli grundvallaður á réttlæti og sanngirni þannig að þeir sem mest hafa leggi hlutfallslega meira af mörkum en þeir sem hafa minna á milli handanna. Í samfélaginu á ekki að skipta máli hvort maður sé barn ríkra foreldra á höfuðborgarsvæðinu eða einstæðs foreldris með lágar tekjur á Raufarhöfn. Samfélag byggir á því að við deilum kjörum, að fáir fleyti ekki rjómann af striti af allra hinna. Fyrir slíkt samfélag skulum við ganga í dag. Munum að baráttunni fyrir réttlátu samfélagi lýkur aldrei og við getum gert svo miklu betur.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð óskar vinnandi fólki til hamingju með daginn.

Katrín Jakobsdóttir

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu