,

Göngum út!

Yfirskrift kvennafrísins í ár er „Breytum ekki konum, breytum samfélaginu“. Mér er til efs að til sé nokkur kona sem ekki hefur gert fjölmargar tilraunir til að breyta sjálfri sér til að ýmist falla eða falla ekki inn í þröng kynhlutverk. Of oft hefur því verið haldið að konum að þær þurfi að gera hlutina á tiltekinn hátt til að misrétti gegn þeim heyri sögunni til. Í einhverja tíð voru skýringar á launamun kynjanna sóttar í að konur væru ekki nægilega menntaðar. Nú þegar konur eru í meirihluta þeirra sem sækja sér háskólamenntun hafa skýringarnar breyst. Þetta er ekki ósvipað og að hlaupa langhlaup en endamarkið færist alltaf fjær.

Margt hefur áunnist síðan 1975 þegar konur lögðu niður störf í fyrsta sinn og margar konur af minni kynslóð eiga sinn pólitíska feril undir almennum leikskólum og lögum um fæðingarorlof. Enn er þó langt í land. Ekki hefur tekist að útrýma launamun kynjanna og konur vinna jafnframt stærstan hluta ólaunaðrar vinnu, svo sem við barnauppeldi og heimilisstörf. #églíka bylgjan afhjúpaði kerfisbundið ofbeldi og áreitni sem konur í öllum lögum samfélagsins hafa mátt búa við. Ofbeldi gegn konum er í senn orsök og afleiðing kynjamisréttis og ein orsök þess hversu hægt gengur að byggja upp samfélag jafnréttis.

Samstaða kvenna er áhrifaríkasta baráttutækið til að knýja á um raunverulegar breytingar, því kvenfrelsisbaráttan krefst róttækrar skoðunar á menningu okkar. Ég mun því fara úr vinnunni kl. 14:55 og taka þannig þátt í baráttunni fyrir betri heimi. Til þess að snúa aftur á morgun og halda áfram að vinna að kvenfrelsismálum í mínu starfi.

Kæru konur, leggjum niður launuð og ólaunuð störf í dag og sameinumst á útifundum um allt land. Höldum síðan áfram því þrotlausa starfi að breyta samfélaginu.