Græðgiskapítalisminn mættur til leiks á ný !

 

Fréttir af áformum endurreistra þrotabúa gömlu bankanna að loknum nauðasamningum um að greiða fáeinum stjórnendum eða yfirmönnum hundruðir milljóna króna í bónusa hafa eðlilega valdið uppnámi. Fréttir af þessu tagi rífa ofan af lítt grónum sárum í íslensku samfélagi.
Græðgin, hrokinn og firringin sem einkenndi lokaár nýfrjálshyggju-græðgiskapítalismans á Íslandi árin fyrir Hrun er þjóðinni enn í fersku minni. Þegar hin meinta snilld bónusgreifanna breyttist á einni nóttu í martröð allrar þjóðarinnar, þegar niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis afhjúpuðu galskapinn, þegar spilaborgin hrundi, þá lærðum við vonandi lexíu sem dugar til lífstíðar.
Fjármálaeftirlitið hefur sett starfandi fjármálafyrirtækjum nokkuð stífar skorður hvað bónusgreiðslur varðar og er það vel úr því ekki er vilji til og jafnvel ekki heimilt vegna Evrópureglna að banna þær með öllu. Engin getur samkvæmt reglum FME fengið meira en sem nemur fjórðungi fastra launa í kaupauka árlega. En vandinn í tilviki þrotabúa gömlu bankanna, sem nú hafa vaknað til lífsins eftir að hafa hoppað á tilboð ríkisstjórnarinnar um að greiða nokkur hundruð milljörðum lægra stöðuleikaframlag en þurfa að sæta greiðslu stöðugleikaskatts, er að þau eru ekki fjármálafyrirtæki. Þau eru í reynd eignarhaldsfélög eða eignaumsýslufélög og að því leiti rétt eins og hver önnur fyrirtæki í atvinnurekstri þó þau eigi sér þennan uppruna.
Er þá ekkert hægt að gera? Jú, sem betur fer. Við eigum ekki að horfa baráttulaust uppá þennan ósóma taka að grassera hér á nýjan leik. Eða hvaðan í ósköpunum kemur sú speki að það verði að verðlauna sérstaklega með bónusgreiðslum það fólk sem mætir í vinnuna sína til að sýsla með peninga frekar en þá sem vinna við það baki brotnu, og oft við viðkvæmar og vandasamar aðstæður, að kenna börnum, annast um sjúka eða beinlínis bjarga mannslífum? Hér koma a.m.k. þrjár uppástungur:
1) Skoða mætti að fella eignarhalds- eða umsýslufélög sem spretta frá föllnum fjármálafyrirtækjum undir gildissvið löggjafar um fjármálamarkað hvað þetta varðar. Bónusgreiðslum væru þá settar sömu skorður þar og í bönkum og öðrum starfandi fjármálafyrirtækjum og væri strax til verulegra bóta.
2) Setja mætti almenna löggjöf um bónusgreiðslur íslenskra lögaðila. Auðvelt er að færa fyrir því mjög gild vinnumarkaðsleg rök að almennt skuli greiða starfsmönnum fyrir vinnu sína með föstum, umsömdum launum. Setja eigi geðþóttaákvörðunum um kaupauka eða bónusa skorður og vinna þannig gegn óhóflegum launamun, ógagnsæi um launaákvarðanir og ástæðulausri píramídamyndun innan fyrirtækja. Það er með öllu óþarft og ástæðulaust að blanda saman við þetta þrautreyndu fyrirkomulagi afkastahvetjandi kerfa í framleiðslustarfsemi.
3) Í öllu falli er í hendi löggjafans að setja tilraunum til að hefja græðgisvæðingu íslensks viðskiptalífs að nýju með þessum nakta hætti, og þó að utan komi, skorður með því að innleiða harkalega skattlagningu á ofurbónusa. Þannig mætti hugsa sér að fara í á bilinu 70-90% tekjuskattshlutfall á bónusgreiðslur umfram reglur FME.
Eitt er verst og kemur ekki til greina, að gera ekki neitt.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG og fyrrverandi fjármálaráðherra.