Hærri framlög til leik- og grunnskóla í Reykjavík.

Reykjavíkurborg ætlar að hækka framlög til ýmissa þátta í leik- og grunnskólum borgarinnar. Framlög hækka til sérkennslu, efniskostnaðar, faglegs starfs og meira fé fer til hráefniskaupa með hækkun fæðisgjalda.

Borgarráð samþykkti aðgerðaáætlun fyrir leik- og grunnskóla á fundi sínum í dag. Áætlunin er í tíu liðum.

Leik- og grunnskólar fá aukið fjármagn  vegna langtímaveikinda starfsmanna, sérkennslu og skólaaksturs. Upphæðin nemur 679 milljónum króna vegna þessa hausts. Fæðisgjald í leik- og grunnskólum verður hækkað um 100 krónur á dag frá og með næstu mánaðamótum og eiga þeir fjármunir að renna óskiptir í hráefniskaup til að bæta gæði máltíða. Í tilkynningu frá borginni segir að eftir breytinguna búi skólar í Reykjavík við sambærileg framlög og þau sveitarfélög sem mest leggja í þennan þátt.  Þá verða framlög til kaupa á námsgögnum til skapandi starfs í leikskólum hækkuð úr 1.800 krónur á barn í 3.000 krónur.

Efla á faglegt starf

Á þessu hausti ætlar Reykjavíkurborg að verja meira fjármagni, alls 24,8 milljónum króna til faglegs starfs í leikskólum, með viðbótarframlögum til undirbúnings bæði fagfólks og ófaglærðra sem og að efling faglegs starfs í leikskólum verði skoðuð við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár. Einnig á að veita auknu fjármagni, 60 milljónum króna, til faglegrar stjórnunar í grunnskólum nú í haust og sömuleðis verði efling faglegs starfs þar líka skoðuð við gerð næstu fjárhagsáætlunar.

Leik- og grunnskólar taka ekki halla síðasta árs með sér

Börn sem fædd eru í mars og apríl 2015 eiga að komast inn á leikskóla borgarinnar frá og með næstu áramótum, en nákvæm tímasetning verður háð rými og stöðu starfsmannamála á hverjum leikskóla fyrir sig. Einnig á að ráðast í sameiginlegt átak með fagfélögum um fjölgun leikskólakennara.  Í aðgerðaáætluninni  segir að unnið verði að nýjum úthlutunarlíkönum fyrir leik- og grunnskóla sem og frístundamiðstöðvar og eiga þau að taka gildi fyrir skólaárið 2017-2018.  Leik- og grunnskólarnir þurfa ekki að mæta halla síðasta árs á þessu ári og verður staða einstakra skóla metin í ljósin ábendinga stjórnenda um óviðráðanleg ytri skilyrði.

Auknar fjárveitingar vegna launahækkana

Fjárveitingar til skóla- og frístundasviðs verða hækkaðar vegna launahækkana samkvæmt kjarasamningum og verður það skoðað við gerð fjárhagsáætlunar. Hækkunin milli áranna 2015 og 2017 er 3,3 milljarðar króna, þar af einn milljarður vegna ársins 2016. Þessi upphæð mun hækka meira þegar samningar við grunnskólakennara hafa náðst.

Þá er gert ráð fyrir að bæta upplýsingagjöf, ráðgjöf og stuðning við stjórnendur leik- og grunnskóla sem þess óska varðandi fjárhag og rekstur.

Af RÚV