,

Heiða Guðný Ásgeirsdóttir tekur sæti á alþingi

Heiða Guðný Ásgeirsdóttir undirritaði drengskaparheit að stjórnarskránni við upphaf þingfundar og flutti sína fyrstu ræðu á alþingi í dag.

” Ég minni á það, herra forseti, að við erum ein þjóð í einu landi og það er stjórnvalda að tryggja öllum landsmönnum sömu grunnþjónustu. Það er stjórnvaldsákvörðun hvað gert er við það rafmagn sem framleitt er í landinu. Í dag er framleitt nóg rafmagn til að knýja flórsköfur og þvottavélar í Skaftárhreppi og rúningsklippur á Vestfjörðum. Vandamálið er hversu illa gengur að flytja rafmagnið og tryggja að það sé til staðar þegar á því þarf að halda og því vill drepast á mjaltavélum og hitakútum fyrir 60 hótelsturtur þegar verst gegnir, en þegar að þessu kemur benda ríkisfyrirtækin hvert á annað.

Ég var á fundi með stjórn og talsmönnum Rariks í lok ágúst og í þeirra máli kom fram að það væri sveitarstjórnarfólks að þrýsta á pólitíkina um að arðgreiðslur Rariks færu í uppbyggingu og endurnýjun dreifikerfisins. Einnig væri þeirra að þrýsta á um auknar arðgreiðslur frá Landsvirkjun og þrýsta á pólitíkina að herða á Landsneti við uppbyggingu dreifikerfis.

Af hverju þarf að vera að þrýsta á um þetta einhvers staðar fyrir aftan bak, þrjú fyrirtæki að hluta eða öllu í eigu ríkisins, öll með svipuð verkefni, sama grunnmarkmið. Enn og aftur, við erum ein þjóð í einu landi. Ég hvet því þingheim til að íhuga alvarlega það hlutverk sitt að tryggja öllum íbúum þessa lands sambærilega grunnþjónustu.”

Sjá ræðu hér:

Lesið ræðu hér: