Heilbrigðisráðherra vill ekki samstarf um Landspítalann

Katrín Jakobsdóttir beindi óundirbúinni fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um húsnæðismál Landspítalans. Katrín benti á að staðan í húsnæðismálum er óviðunandi: „Ekki aðeins er spítalinn rekinn á 17 stöðum á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Katrín, „heldur erum við að horfa upp á stöðugar slæmar fréttir frá spítalanum, hvort sem það er sveppasýking í skrifstofum, mygla, faraómaurar sem nú er verið að berjast við“.

Þá kallaði Katrín eftir samráði um fjármögnun nýs spítala: „Er ekki rétt að ríkisstjórn reyni að efna til þjóðarsáttar um þetta mál og kalla alla að borðinu — þar með talið stjórnarandstöðuna, þar með talið þá sem vinna á spítalanum, þar með talið þá sem þurfa að leita þangað eftir þjónustu – ekki bara um það hvernig spítalinn eigi að vera heldur hvernig eigi að fjármagna hann.

Kristján Þór sagðist í svari sínu ekki telja að fara þurfi fram samráð um spítalann og fjármögnun hans. „Ég tel alveg ástæðulaust, bara svo ég segi það alveg hreint út, að ríkisstjórnin þurfi einhverja sérstaka aðstoð við það að finna þá þriðju leið sem eftir er að skoða varðandi fjármögnun. Ég tel ríkisstjórnina fullkomlega treystandi til þess.“ Í seinni ræðu sinni sagðist Katrín telja málið vera svo stórt að það kalli á samráð. „Við erum reiðibúin til samstarfs“, sagði Katrín að lokum.