Heilbrigðisþjónusta í almannaeigu og almannaþágu

Hvert sem ég fer hitti ég fólk sem hefur áhyggjur af innviðum samfélagsins, ekki einungis mótmælendur á Austurvelli heldur fólk við sín daglegu störf hér og þar í samfélaginu. Fólk hefur meðal annars áhyggjur af því að læknar flýi land, að rekstur Landspítalans sé kominn á ystu brún og að húsnæði hans sé að fyllast af myglu, músum og maurum. Það hefur líka áhyggjur af stöðunni í framhaldsskólum þar sem vísa á nemendum yfir 25 ára aldri á „önnur úrræði“ og það hefur áhyggjur af stöðu iðnnáms í ljósi þess að í fjárlagafrumvarpinu eru þurrkaðar út þær 150 milljónir sem ætlaðar voru til að styðja fyrirtæki og stofnanir til að taka iðnnema á samning í gegnum Vinnustaðasjóð. Og svo mætti lengi telja.

Góðir innviðir forsenda lífsgæða og frelsis

Gott samfélag þarf að hafa trausta innviði og það eru þeir sem hafa gert það að verkum að það er gott að búa á Íslandi. Innviðirnir eru forsenda lífsgæða og frelsis fólks. Til þess að fólk hafi frelsi til að rækta hæfileika sína, þróast og þroskast eftir þeim leiðum sem það vill sjálft þarf það að geta treyst á heilbrigðisþjónustu, menntakerfi, fjarskipti og samgöngur og alla hina þræðina í samfélagsvefnum.

Og eftir niðurskurð sem virðist eiga að halda áfram þrátt fyrir gerbreytta stöðu ríkissjóðs hefur fólk áhyggjur af innviðunum. Eitt af því sem fólk hefur áhyggjur af er áframhaldandi niðurskurður í samhengi við stefnu stjórnvalda um að auka einkarekstur. Það eru þekkt dæmi um það erlendis að skorið hefur verið niður í opinberri þjónustu til að fela arðbæra hluta hennar einkaaðilum í kjölfarið – undir því yfirskini að „bæta þjónustuna og gera hana hagkvæmari“.

Heildstæð þjónusta í almannaeigu

En það yfirskin stenst iðulega ekki skoðun. Þannig getur einkarekstur í heilbrigðiskerfinu leitt til aukins kostnaðar sjúklinga og almennt hefur einkarekstur í heilbrigðiskerfinu ekki dregið úr heildarkostnaði heldur þvert á móti aukið hann. Nýleg dæmi frá Bretlandi gefa þetta t.d. til kynna. Þá er það iðulega raunin að  kostnaðarsamasta þjónustan er áfram hjá hinu opinbera en einkaaðilarnir taka við hefðbundnari þjónustu og ódýrari með þeim afleiðingum að þjónustan verður ekki heildstæð. Aðaláhyggjuefnið er þó sú mismunun sem þetta kerfi hefur í för með sér þar sem sumir fá lakari þjónustu en aðrir.

Þetta þarf að hafa í huga þegar fjárframlög til grunneininga hins opinbera heilbrigðiskerfis eru skoðuð í sögulegu ljósi. Þar hafa sjúkrahúsin og heilsugæslan átt undir högg að sækja. Það er nauðsynlegt að rétta þá stöðu af og styrkja rekstrargrunn Landspítalans og heilsugæslunnar um land allt. Það er í takt við vilja landsmanna, margítrekaðar skoðanakannanir hafa sýnt það að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vill heilbrigðisþjónustu í almannaeigu og almannaþágu. Því verður varla trúað að stjórnvöld ætli að ganga á svig við þann meirihluta.

Katrín Jakobsdóttir