Heimur án kjarnorkuvopna: ræða Fabians Hamilton

Hinn sögulegi samningur um bann við kjarnorkuvopnum, sem var samþykktur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sl. sumar, mun þegar fram líða stundir breyta því hvaða augum heimurinn lítur kjarnorkuvopn. Þetta sagði Fabian Hamilton, skuggamálaráðherra í friðar- og afvopnunarmálum frá Bretlandi, á landsfundi VG í dag. Hamilton bar fundinum kveðju frá Jeremy Corbyn, formanni Verkamannaflokksins, en Corbyn og Hamilton hafa verið virkir í friðarbaráttunni í Bretlandi um áratuga skeið.

Embætti skuggaráðherra í friðar- og afvopnunarmálum var komið á fót af Corbyn, formanni Verkamannaflokksins, en sambærilegt embætti er ekki innan bresku ríkisstjórnarinnar. Hamilton er falið að að leita leiða til að draga úr ofbeldi, stríðum og átökum á heimsvísu og tala fyrir ábyrgri utanríkisstefnu Breta í þessum efnum, en Bretland er eitt af stærstu herveldum heims.

Hamilton áréttaði á landsfundi VG í dag að mannkynið yrði að stöðva sjálfstortímingarhvötina sem fælist í því að þróa og viðhalda kjarnorkuvopnum. Skref hafi verið tekin fram á við í banni á kjarnorkuvopnum og efnavopnum og að heimur án þeirra væri vel mögulegur.