Heitum á framtíðina

 

Alþingi kemur saman í dag á hátíðarfundi á Þingvöllum í tilefni af hundrað ára afmæli fullveldisins. Þar verður til umræðu tillaga formanna allra stjórnmálaflokka á Alþingi þar sem annars vegar er lagt til að efla rannsóknir á sjávarauðlindinni með smíði nýs hafrannsóknaskips og hins vegar stofnun nýs Barnamenningarsjóðs til næstu fimm ára sem ætlað er að tryggja þátttöku allra barna í sköpun og menningu.

 

Báðar þessar tillögur snúast um framtíðina. Hafið hefur alla tíð mótað þessa eyþjóð, verið uppspretta lífsbjargar okkar en er að breytast, ekki síst vegna loftslagsbreytinga af manna völdum. Þar er mikilvægt að tryggja öflugar rannsóknir til að við getum spornað við breytingum á borð við súrnun sjávar og annarri mengun, til dæmis plastmengun. Um leið er mikilvægara en nokkru sinni að fylgjast með fiskistofnunum sem munu væntanlega verða fyrir áhrifum af þessum miklu breytingum. Gæfa okkar í framtíðinni mun ráðast af því hversu vel við munum standa að rannsóknum, vöktun og þróun á öllum sviðum, ekki síst þegar kemur að auðlindum okkar.

 

Tillagan um Barnamenningarsjóð endurspeglar skýran vilja Alþingis til að horfa sérstaklega til barna og ungmenna og þannig til framtíðar. Hún felur það í sér að tryggja betur aðgengi allra barna að menningu, stuðla að aukinni sköpun barna og ungmenna á sviði lista og menningar og stuðla að aukinni samfélagslegri þátttöku barna í takt við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, meðal annars með nýju barnaþingi sem haldið verður reglulega á vegum Umboðsmanns barna.

 

Samfélög eiga ekki síst að vera mæld eftir því hvernig þau koma fram við börn og hvernig þau tryggja að öll börn fái tækifæri til að þroska hæfileika sína þannig að þau nái að dafna og fylgja draumum sínum eftir. Þannig tryggjum við betra samfélag, jafnaðarsamfélag.

 

Fullveldisafmælið snýst bæði um að minnast þess framsýna fólks sem barðist fyrir fullveldinu á erfiðum tímum fyrir einni öld og að strengja heit inn í framtíðina. Í fullveldishugtakinu sjálfu felst nefnilega fyrirheit um framtíð og þau samfélög sem hafa trú á framtíðinni hlúa einkum og sér í lagi að börnunum sínum. Ég fagna þeirri trú á framtíðina sem birtist í þessum tillögum.

Katrín Jakobsdóttir

forsætisráðherra