Horfið frá séreignarstefnu

Katrín Jakobsdóttir þingkona Vinstri grænna lýsti yfir þungum áhyggjum af stöðu húsnæðismála hjá ungu fólki á Alþingi í síðustu viku og spurði Eygló Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra um sýn hennar í húsnæðismálum á Alþingi í dag. Eygló lýsti þeirri afstöðu að hverfa ætti frá hinni svokölluðu séreignarstefnu.

Erfið staða ungs fólks á húsnæðismarkaði

Katrín sagðist hafa miklar áhyggjur af stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði og að dæmi bentu til þess að hún gæti orðið svipuð og í sumum löndum Evrópu þar sem ungt fjölskyldufólk neyðist til að flytja inn á foreldra sína.

„Eins og staðan er, að minnsta kosti hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem nýjar rannsóknir sýna að flestir vilja búa, þar er ungt fólk í sömu stöðu, því miður, þar sem leiguverð er nánast óviðráðanlegt og húsnæðisverð, sérstaklega í sumum hverfum borgarinnar, hefur farið hækkandi,“ sagði Katrín og kallaði eftir sýn Eyglóar í málinu sem brýnt væri að leysa úr ef Ísland ætti áfram að verða eftirsóknarverður staður fyrir ungt fólk að búa á. „Ég held að ekki verði komist í gegn um þessi mál án þess að til komi mjög markvissar aðgerðir bæði ríkis og sveitarfélaga,“ bætti hún síðan við.

Tafir á vinnu við mótun húsnæðisstefnu

Eygló sagði að nú stæði yfir vinna við mótun húsnæðisstefnu í samræmi við ályktun Alþingis þar um og að tafir hefðu orðið á henni.

„Ég tel að húsnæðisstefnan eigi að endurspegla þann fjölbreytileika sem er í íslensku samfélagi. Að það sé raunar ekki einhver ein lausn sem henti öllum. Að það sé ekki bara þannig að það sé bara hægt að tryggja að allir kaupi eða allir leigi. Þú þarft að vera með þessa valkosti og þú þarft að tryggja það að fólk búi við öryggi,“ sagði Eygló um sína sýn.

Katrín sagði svar Eyglóar vera mikilvægt. „Þar með segir hæstvirtur ráðherra að hverfa eigi frá þeirri séreignarstefnu, sem kannski var aldrei mótuð eða ákveðin en hefur eigi að síður verið raunin í íslensku samfélagi undanfarna áratugi, og það er mjög mikilvæg sýn,“ sagði hún og spurði: „Telur ráðherra að þar muni félagslegur íbúðalánasjóður í eigu hins opinbera og sveitarfélög hafa hlutverki að gegna eða horfir hæstvirtur ráðherra fremur til markaðslausna til að ná þessu markmiði um fjölbreytt húsnæði og öruggt?“ Eygló svaraði því til að mikilvægt væri að bjóða upp á fjölbreyttar lausnir.