,

Hreinn bær, okkar bær

Um daginn birti RÚV frétt sem fjallaði um smábæ í Kanada sem hafði verið stefnt af olíu risanum Gastem. Bæjarstjórn bæjarins hafði áhyggjur af vatnsbóli bæjarbúa og bannaði fyrirtækinu að bora fyrir olíu og gasi í tveggja kílómetra radíus frá vatnsbólinu. Olíu fyrirtækið taldi lög sveitarfélagsins ólögleg og krafðist skaðabóta upp á 1,5 milljóna Kanadadala sem er meira en þrefalt það fjármagn sem sveitarfélagið hefur á milli handanna á ári hverju.  Hæstiréttur í Quebec dæmdi sveitarfélaginu í hag. Sveitarstjóri bæjarins lét hafa eftir sér að réttur sveitarfélagsins til að vernda vatnsból sitt hafi verið viðurkenndur að fullu.

Þessi saga er gott dæmi um þau grundvallar réttindi manna að hafa aðgang að hreinu vatni og andrúmslofti. Þessi réttur íbúa Reykjanesbæjar hefur undanfarin ár verið undir stöðugri árás með framkvæmdum stórmengandi iðnaðar í Helguvík.

Undanfarin ár hef ég barist gegn illa grundaðri stefnu bæjarstjórnar Reykjanesbæjar að samþykkja lóðir fyrir stórmengandi iðnað innan tveggja kílómetra fjarlægð frá íbúabyggð.  Flestum er full ljóst hvað áhrif United Silicon hafði á heilsu og líðan bæjarbúa þegar verksmiðjan hóf framleiðslu með einum af fjórum ljósbogaofnum sem starfsleyfið veitir. Ef til vill eru færri sem muna eftir því að fyrir fjórum árum þegar nýkjörin bæjarstjórn tók við völdum var samþykkt nær einróma að veita annari kísilverksmiðju, Thorsil, leyfi til framleiðslu í Helguvíkinni. Þessi ákvörðun var óskynsamleg þar sem engin reynsla var komin á fyrri verksmiðjuna, þ.e. United Silicon.

Á þessum tíma var ég í fjórða sæti á óháðum lista Samfylkingarinnar þar sem helsta slagorð fylkingarinnar var “íbúasamráð skal hafa í öllum stórum umhverfismálum”.
Skemmst er frá því að segja að það loforð var ekki efnt.
Þegar nokkrir ötulir bæjarbúar að mér meðtalinni hófum að safna undirskriftum fyrir íbúakosningar bar lítið á stuðningi bæjaryfivalda. Stjórn bæjarins lét hafa eftir sér að það skipti litlu máli hvað bæjarbúar myndu kjósa, verksmiðjan yrði samþykkt.

Í dag stendur bygging kísilversins United Silicon undir lás og slá eða þar til næstu eigendur taka við verksmiðjunni væntanlega með loforð sem og fyrri eigendur, um mengunarbúnað af bestu fáanlegri gerð. Þrotabú United Silicon skuldar bæjarfélaginu hundruða milljóna og Thorsil hefur enn ekki borgað lóðargjöld. Svo virðist sem bæjarstjórn hafi engan metnað til að nálgast peningana þar sem verksmiðjan hefur fengið ítrekaðan greiðslufrest.

Tími mengandi stóriðju er liðinn og áframhaldandi framkvæmdir í Helguvík eru byggðar á röngum forsendum þar sem heilsa íbúa er virt að vettugi. Til að tryggja farsæla framtíð bæjarbúa verður að stöðva allar framkvæmdir kísilvera í Helguvík.
Ég vona að næsta bæjarstjórn sýni dug,  metnað og hugrekki til að tryggja íbúum bæjarins heilnæmt umhverfi, tökum smábæinn í Kanada okkur til fyrirmyndar.

Dagný Alda Steinsdóttir
Formaður VG á Suðurnesjum