Hugsað við foss

Um helgina fór ég upp að Gljúfurleitarfossi í Þjórsá. Það er erfitt að komast að fossinum sem er einn þriggja fossa á svæðinu, hinir heita Kjálkaversfoss og Dynkur, sem mun vera þekktastur þeirra. Æ fleiri göngumenn leggja nú leið sína að skoða þessa fossa og skal engan undra. Gljúfurleitarfoss er glæsilegur þar sem hann beljar ofan í gljúfrið, umkringdur fallega grónu svæði þar sem hægt var að leggja sig í mosaþembu og tína krækiber.

Hins vegar er vegurinn inn á Gnúpverjaafrétt slakur og eflaust er það þess vegna sem fáir leggja leið sína hingað, þótt þeim fari fjölgandi. Þessir þrír fossar eru þó orðnir þekktari en áður, ekki síst vegna þess að þeim er ógnað af hugmyndum Landsvirkjunar um Norðlingaölduveitu sem þó var skipað í verndarflokk af síðustu verkefnisstjórn rammaáætlunar. Landsvirkjun setti þá fram nýja hugmynd undir nafninu Kjalölduveita sem hefur sömu áhrif á þessa þrjá fossa sem þó voru ein ástæða þess að virkjuninni var skipað í verndarflokk.

Í sömu ferð var keyrt í gegnum sveitina þar sem rætt hefur verið um byggingu þriggja virkjana í Þjórsá: Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun. Hvammsvirkjun var færð í nýtingarflokk rammaáætlunar á Alþingi nú í sumar gegn atkvæðum allra þingmanna Vinstri-grænna og Róberts Marshalls. Öll rök mæla með því að ráðist verði í nýtt umhverfismat fyrir þessa framkvæmd enda fyrirliggjandi mat orðið meira en tíu ára og á við um samanlögð áhrif allra virkjananna þriggja en ekki Hvammsvirkjunar einnar. Mörgum spurningum var ósvarað um áhrif virkjunarinnar á Þjórsárlaxinn sem í felast mikil verðmæti, bæði fyrir lífríkið en líka efnahagsleg þar sem villtur lax er nú dýrmæt auðlind.

Og enn á sömu leið bar fyrir augu tvær vindmyllur í fullum snúningi. Hvor um sig framleiðir eitt megavatt en fyrirhugað er að reisa fleiri og munu sumar geta framleitt tvö megavött. Vindmyllurnar eru þyrnir í augum sumra en áhrif þeirra á landið eru mun minni en virkjana á borð við þær sem ég hef nefnt hér. Umhverfisáhrif þeirra eru líka afturkræf; þær má hæglega fjarlægja.

Íslendingar hafa þegar nýtt helming alls nýtanlegs vatnsafls– á fáeinum áratugum. Nú er full ástæða að staldra við og velta því fyrir sér í hvað við ætlum að nýta orkuna og hvort ekki sé rétt að skoða aðrar orkuuppsprettur sem hafa minni umhverfisáhrif á borð við vindinn. Ef ætlunin með virkjun orku er að ráðast í orkuskipti samgangna þannig að Ísland geti orðið kolefnishlutlaust á næstu áratugum er rétt að skoða þá möguleika og hvaða orku er þá skynsamlegast að virkja. En ef einkum er virkjað til að snúa svokölluðum hjólum atvinnulífsins, á sama tíma og vöxturinn er mestur í ferðaþjónustu og nýsköpun þar sem einmitt þarf að byggja upp innviði, minnir það einna mest á mann sem eyðir orkunni í að færa til húsgögnin til að sýnast iðinn – á meðan fyllist þvottakarfan því raunverulegum verkum er ekki sinnt.

Katrín Jakobsdóttir