Húsnæðismál eru kjaramál

 

Húsnæðismál hafa löngum verið mikilvægur þáttur í baráttu fólks fyrir bættum lífsgæðum, enda einn grunnþáttur þess að fólki geti liðið vel. Í gegnum tíðina hafa samtök launafólks oft látið til sín taka á þessu sviði, meðal annars með samningum við ríkisvaldið í tengslum við gerð kjarasamninga. Bygging fyrstu verkamannabústaðanna við Hringbraut á upphafsárum fjórða áratugarins eru þannig einn af merkustu áföngunum í langri sögu verkalýðshreyfingarinnar.

Lögin um verkamannabústaði voru borin fram á Alþingi árið 1929 af jafnaðarmanninum Héðni Valdimarssyni sem jafnframt var formaður Dagsbrúnar. Framkvæmdir hófust tveimur árum síðar, þegar kreppan mikla hafði skollið á landinu af fullum þunga. Kreppuárin voru þjóðarbúinu og almenningi þungbær, en þó er athyglisvert að þess sá ekki stað í hönnun þessara nýju húsa. Verkamannabústaðirnir voru byggðir eftir bestu og nýjustu viðmiðunum í húsagerð þess tíma. Þannig voru baðherbergi í hverri íbúð, eldhús hönnuð fyrir rafmagnseldavélar og sameiginlegt þvottahús í kjallara, en ekkert af þessu var talið sjálfsagt í heimkynnum efnaminna fólks.

Saga Reykjavíkur á fyrri hluta tuttugustu aldar er að miklu leyti saga húsnæðisekklu. Fólk streymdi á mölina en ekki tókst að halda í við fjölgunina með byggingu á nýju íbúðarhúsnæði, einkum á stríðstímum. Alla tíð heyrðust þau sjónarmið að leysa bæri vandann með tímabundnum lausnum og með því að slá af kröfum. Þannig voru byggðakjarnar á borð við Pólana og Höfðaborg reistir í skyndingu með lágmarkstilkostnaði undir þeim formerkjum að um bráðabirgðahús væri að ræða. Veruleikinn varð sá að húsin stóðu í áratugi, án þess að vera mannsæmandi húsnæði. Sömu sögu má segja um kjallarakytrur og braggabyggð út um alla borg.

Verkalýðshreyfingin hafnaði þessari nálgun og lagði alla tíð áherslu á að íbúðarhús verkafólks skyldu reist með langtímahugsun að leiðarljósi og án þess að slegið væri af kröfum um gæði. Sú einarða stefna reyndist heilladrjúg.

Enn í dag takast á þessi sömu sjónarmið. Húsnæðisvandinn er ærinn, ekki hvað síst í höfuðborginni en einnig víða annars staðar. Langir biðlistar eftir leiguhúsnæði eru til marks um þennan vanda. Ungt fólk á erfitt með að eignast eigin heimili og tekjulágir þurfa að greiða 40% eða meira af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað. Spilar þar margt saman s.s. hátt fasteignaverð, lítið framboð af leiguíbúðum og hátt leiguverð.

Því heyrist oft fleygt að nú verði að byggja hratt og byggja ódýrt til að bregðast við hinum mikla húsnæðisvanda. Nýleg byggingareglugerð, sem sett var undir forystu Svandísar Svavarsdóttur fyrrverandi umhverfisráðherra, er iðulega gerð að blóraböggli og látið sem hún sé rót þess að hér skorti húsnæði á viðráðanlegu verði. Því fer þó fjarri. Það er vel hægt að byggja litlar íbúðir samkvæmt byggingareglugerðinni. Það sem mest er um vert og mikilvægt er að standa vörð um er að í  byggingareglugerð eru ýmis ákvæði um það hvaða skilyrði húsnæði þarf að uppfylla.

Hagsmunaaðilar hafa haldið uppi linnulitlum árásum á byggingareglugerðina með það að markmiði að hámarka gróða sinn með því að slá af kröfum um gæði efna, mega snúa íbúðum þannig að þar njóti ekki sólar og víkja frá kröfum um aðgegni.

Sumum atlögum að nýrri byggingareglugerð hefur verið hrundið, en aðrar virðast njóta meiri stuðnings stjórnvalda. Mikilvægt er að við drögum lærdóma af sögunni í þessum efnum og horfum til fyrri afreka verkalýðshreyfingarinnar. Öflugar og metnaðarfullar byggingareglugerðir reynast alþýðunni bæði til lengri og skemmri tíma betur en hugmyndir um ódýrar bráðabirgðalausnir, jafnvel þótt þær kunni að vera settar fram af góðum hug.

Húsnæðismál eru kjaramál. Krafa róttækrar vinstrihreyfingar hlýtur því að vera húsnæðiskerfi sem styður tekjulága hópa og kemur í veg fyrir að bróðurpartur tekna þeirra fari í húsnæði. Tryggja þarf nægt framboð af húsnæði, en það má ekki gerast með þeim hætti að íbúðir efnaminna fólks verði lakari. Afslættir frá kröfum um gæði íbúða mega ekki líðast.

Sérstaklega er mikilvægt að standa vörð um aðgengismál í nýju húsnæði. Annars vegar vegna þess að það er réttindamál til að tryggja að allir hafi jafna möguleika til þátttöku í samfélaginu. Hins vegar vegna þess að það er þjóðhagslega hagkvæmara þegar til lengri tíma er litið. Það er staðreynd að það er mun dýrara að breyta þegar byggðu húsnæði til að gera aðgengilegt en að hanna og byggja aðgengilegt frá grunni. Fyrir þjóð sem er að eldast er því gríðarmikilvægt að íbúðarhúsnæði sé aðgengilegt fólki með skerta hreyfigetu.

Steinunn Þóra Árnadóttir

(grein áður birt í 1. maí blaði VG í Reykjavík.)