Hvammsvirkjun ekki til umhverfisnefndar

Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða var til umræðu á Alþingi í dag en umhverfis- og auðlindaráðherra leggur nú til að Hvammsvirkjun fari úr biðflokki yfir í nýtingarflokk. Þetta er gert þrátt fyrir verulega óvissu um áhrif slíkrar virkjunar á laxagengd, óvissu um hver áhrif mótvægisaðgerða vegna laxagengdar verða á arðsemi slíkrar virkjunar og þá staðreynd að samfélagsleg áhrif slíkrar virkjunar hafa í raun ekki verið metin.

Mestum usla olli þó tillaga umhverfis- og auðlindaráðherra að vísa tillögunni til atvinnuveganefndar en ekki umhverfis- og samgöngunefndar þó að málið sé á forræði umhverfis- og auðlindaráðherra og hafi áður verið hjá umhverfis- og samgöngunefnd. Með þessari tilhögun er nýtingin rifin úr samhengi við verndun nattúru og umhverfis og þannig gengið þvert á hugmyndafræði rammaáætlunar sjálfrar. Þetta sýnir skýrt hvaða augum núverandi stjórnvöld líta rammaáætlun og náttúruverndarmálin í heild sinni.