Hvar varst þú þegar geirvartan var frelsuð?

Stöldrum aðeins við og hugsum okkur um. Ég hef ekki tölu á því hversu margar myndir ég hef séð af karlmönnum berum að ofan í gegnum tíðina. Jafnvel hópmyndir þar sem fjöldinn allur af karlmönnum berar geirvörtur sínar.

Ég vissi hins vegar vel hvernig viðbrögðin væru ef hópur kvenna gerði það sama. Þangað til í gær. Þar til í gær hefðu viðbrögðin verið á þá leið að konurnar hefðu verið skammaðar fyrir að særa blygðunarkennd fólks eða vera sjálfum sér til skammar. Já, og þær hefðu líklega fengið skilaboð frá mönnum sem bæðu um fleiri myndir.

Í gær fór netið á hliðina. Ungar konur fengu nóg af þeim tvískinnungi að karlmenn mættu birta myndir af geirvörtum sínum án þess að mæta fordómum en þær ekki. Stór hópur kvenna sýndi samstöðu í verki og birti myndir af brjóstunum á sér.

Brjóst eru ekki kynfæri.

Það kann að koma mörgum á óvart en brjóst eru ekki kynfæri. Brjóstum er ekki ætlað að örva neinn kynferðislega. Alveg eins og júgrum kúa er ekki ætlað að örva neinn kynferðislega. Þeim er ætlað að næra afkvæmi.

Hversu kjánalegt er þá að konur megi ekki gefa brjóst á almannafæri? Konum er oft gert að fara afsíðis til að næra börnin sín til að særa ekki blygðunarkennd annarra. Það sendir þau skilaboð að þær eigi að skammast sín fyrir að nota brjóstin sín í þeim tilgangi sem þau þjóna. Þessi fituvefur sem situr framan á flestum konum var ekki gerður til að þjóna neinum kynferðislegum tilgangi. Hann var gerður til að næra ungabörn, til að framleiða mjólk.

Það á að vera í höndum kvenna hvort þær beri eða feli brjóstin sín. Engra annarra. Það á enginn að geta sagt okkur að ákveðinn líkamshluti okkar særi blygðunarkennd fólks meira en sambærilegur líkamshluti karla. Það kallast kynjamisrétti og það leynist víða.

Þær frábæru og kjörkuðu konur sem hafa brjóst sín á netinu síðan þetta byrjaði (en þær eru of margar til að telja á þessum tímapunkti) voru ekki að birta myndirnar fyrir kynferðislega örvun eins né neins. Þetta er yfirlýsing um að völdin séu í okkar höndum. Þið, sem hafið sent konum skilaboð og beðið um fleiri myndir, megið skammast ykkar og fræða ykkur betur. Vonandi áttið þið ykkur á því hvað hegðun ykkar er skaðleg og að þið gerið sjálfa ykkur að fíflum.

Vandamálið er margþætt

Þetta er einungis einn angi þess risastóra vandamáls að konum sé kennt að líkamar sínir séu eitthvað til að skammast sín fyrir. Sjálfri leið mér þannig þangað til í gær. Þetta viðhorf, að karlmenn þurfi bara að hylja klofin á sér en konum beri að hylja helmingi meira af sínum líkömum, hefur áhrif. Það grefur sig inn í undirmeðvitundina.

Meira að segja í kvikmyndum eru brjóst kvenna oftast hulin, jafnvel þó að þær eigi að hafa stundað besta kynlíf lífs síns örfáum sekúndum fyrr. Þær eru oftast með lakið breitt yfir bringuna til að hylja allt á sem settlegastan hátt svo að ekkert fari fyrir brjóstið á fólki. Aldrei hef ég séð karlmann hylja á sér bringuna við sambærilegar aðstæður.

Í ljósi þess að stafrænt kynferðisofbeldi (hefndarklám, hrelliklám) hefur verið mikið milli tannana á fólki að undanförnu kemur þessi bylting eins og ferskur andvari inn í samfélagið. Hópur kvenna lýsir því yfir að þær, og þær einar, hafi völd yfir sínum líkömum. Ég get ekki ímyndað mér það hversu dýrmætt það er fyrir þolendur stafræns kynferðisofbeldis að sjá slíkan stuðning í verki. Að sjá og vita að – þó að einhver hafi reynt að taka af þeim völdin yfir eigin líkama með svívirðilegum myndreifingum – þá hafi þær enn völdin í sínum höndum. Ég leyfi mér að kalla þetta byltingu vegna þess að ég held að ekki verði aftur snúið. Ég vona að þetta geri það að verkum að þeir sem beita stafrænu kynferðisofbeldi verði valdalausir. Ég vona að við hættum að kyngera líkamshluta að óþörfu.

Kynslóðin sem verður ekki kyngerð

Kunningi minn er ungur faðir. Hann á tæplega eins árs gamla dóttur. Hann tók þátt í byltingunni með því að birta mynd af sér og dóttur sinni og sagði að hún hafi viljað þakka kynsystrum sínum fyrir. Það er mín heitasta ósk að sú litla stúlka verði aldrei kyngerð. Að hún þurfi aldrei að skammast sín fyrir neinn líkamshluta sinn. Sá draumur er ekki svo fjarstæðukenndur eftir gærdaginn. Gærdagurinn sýndi svo vel hvað það þarf lítið til að breyta viðhorfi fólks. Fjölmargar stelpur sem vissu upp á sig sökina eftir að hafa gert lítið úr kynsystrum sínum fyrir nektarmyndir tóku þátt og viðurkenndu mistök sín. Að hugsa sér hversu mörgum viðhorfum hefur verið breytt á einum degi. Ég vona að sú stutta, sem fagnar brátt eins árs afmæli sínu, muni hlæja dátt þegar hún heyrir foreldra sína segja í góðra vina hópi: „Hvar varst þú þegar geirvartan var frelsuð?” Að sú hugmynd um að konur þurfi að skammast sín fyrir líkama sína verði þá löngu horfin.

Höfundur er talskona Ungra vinstri grænna.