Í átt til ójöfnuðar

Eflaust eru margir hugsi yfir nýlegum fréttum um að ríkasta eina prósentið á jörðinni eigi nú næstum helming alls auðs mannkyns og í nýrri skýrslu bresku hjálparsamtakanna Oxfam er því spáð að á næsta ári verði eignir þessa eina prósents meiri en samanlagðar eigur allra hinna. Samkvæmt gögnum frá Skattstjóra sem Ríkisútvarpið hefur tekið saman á ríkasta eitt prósent íslenskra skattgreiðenda hátt í fjórðung alls auðs landsmanna. Ríkustu tíu prósentin eiga næstum þrjá fjórðu. Líklega eru eignirnar þó vanmetnar fremur en hitt því að stór hluti þeirra liggur í verðbréfum sem geta verið talsvert meira virði en nafnvirði þeirra segir til um.

Það er jákvætt að um þessi málefni er meira fjallað nú eftir efnahagskreppu en fyrir hana þegar brauðmolahagfræðin var ráðandi í allri umræðu sem boðaði að það væri sérstaklega gott að hinir ríku yrðu ríkari því þá myndu brauðmolar hrjóta af gnægtaborðum þeirra til hinna fátækari þannig að ójöfnuðurinn gagnaðist öllum. Nú keppast alþjóðastofnanir hins vegar við að lýsa brauðmolahagfræðina dauða, þeirra á meðal íhaldssamar stofnanir á borð við OECD. Stofnanir innan Sameinuðu þjóðanna hafa ennfremur bent á að ójöfnuður, hið sívaxandi bil milli ríkra og fátækra, sé ein helsta orsök átaka í heiminum.

Af einhverjum ástæðum virðast fregnir af dauða brauðmolahagfræðinnar ekki hafa skilað sér inn í stjórnarráð Íslands. Þar boða menn sömu hagfræði og hér var iðkuð fyrir hrun. Fjármálaráðherra vill hverfa frá þrepaskipta skattkerfinu sem er raunverulegt tekjujöfnunartæki og lækka skatta. Þetta á að gera í nafni einföldunar en hefur þau óhjákvæmilegu áhrif að lækka skatta þeirra sem hafa háar tekjur og færa skattbyrðina yfir á lág- og millitekjuhópa. Slík aðgerð myndi beinlínis auka ójöfnuð.

Önnur áhrif væru þau að rýra skattstofna samfélagsins sem svo sannarlega þarf á þeim að halda. Skattalækkanir sem þýða að ekki er hægt að byggja upp velferðarkerfið eru ekki kjarabót fyrir almenning heldur kjaraskerðing því þær standa í vegi fyrir því að allir geti sótt sér menntun og heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags. Í því felst engin kjarabót fyrir venjulegt fólk.

Framundan eru kjarasamningar. Ein mikilvægasta kjarabót almennings í landinu er að tryggja aðgengi allra að velferðarkerfi og menntun. Því miður hefur ríkisstjórnin ekki sýnt í verki að hún vilji slíkar kjarabætur þar sem hún hefur hækkað hvers kyns sjúklingaskatta, takmarkað aðgang að framhaldsskólamenntun og dregið úr þjónustu við almenning. Á sama tíma boða talsmenn ríkisstjórnarinnar afturhvarf til flatra skatta sem munu koma mest við kaun lág- og millitekjuhópa.

Á meðan alþjóðasamfélagið lýsir þungum áhyggjum af vaxandi ójöfnuði á heimsvísu ætti verkefni hérlendra stjórnvalda að vera að tryggja að hagvöxtur nýtist öllum og auka jöfnuð með markvissri uppbyggingu samfélagsins og réttlátri dreifingu skattbyrði. Markmið komandi kjarasamninga ætti líka að vera að dreifa þeim verðmætum sem sannanlega eru til í hagkerfinu með réttlátum hætti. Því miður virðast íslensk stjórnvöld ekki standa undir þessu verkefni.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna