Í tilefni þjóðhátíðardagsins

Stjórnmálamenn, Staksteinahöfundur og nokkrir álitsgjafar hafa sakað VG um að “vera á móti” lögreglunni, “hatast við” löggæsluna og sérsveitina og “ekki viðurkenna hættu” á árásum á fulltrúa hins opinbera eða almenna borgara, á hvers konar hryðjuverkum. Vafalítið má rekja neikvæð orð um lögreglu til einstakra félaga hreyfingarinnar. Þau hafa ýmist sprottið vegna dæma um þjösnaskap fárra lögreglumanna í garð almennra borgara, eða mótmælenda, eða af hugsjónum sumra félaga í VG um algjört vopnleysi og 100% friðsamlegt andóf í samfélaginu. Þær skoðanir ber að virða en langflestir innan og utan hreyfingarinnar eru sammála um að hin almenna stefna VG um löggæslu í landinu er ekki á þessum sérnótum.
Staðreyndir tala sínu máli: VG hefur ekki staðið gegn myndun og þróun sérsveitarinnar – hvað sem gagnrýni á einstakar aðgerðir líður eða á misheppnaða viðtöku norskra vopna – og hvað sem líður gagnrýni félaga VG á hugmyndir örfárra stjórnmálamanna um að gera úr sveitinni eitthvað annað en hún er. VG hefur heldur ekki amast við vopnum Landhelgisgæslunnar, hvorki fyrr né síðar, né tilvist vopna í áratugi á lögreglustöðvum. VG hefur ekki gagnrýnt veru sérsveitar við sérstök mannamót þar sem hún er til taks í bílum sínum en sýnileg, almenn löggæsla notuð þar fyrir utan. VG hefur stutt kröfur víða að um fjölgun lögreglumanna (um 200 í það minnsta) og krafist aukinnar löggæslu á vegum úti og á hálendinu svo eitthvað sé nefnt. Hef sjálfur minnst á alvarlegt fjársvelti í löggæslumálum í ræðum á þingi. Mín mynd af afstöðu VG til lögreglunnar helgast af ofanskráðu. Hafi ég rangt fyrir mér, vil ég fá um það orð.
VG sem stjórnmálafl getur ekki, og hefur heldur ekki, borið brigður á faglegt mat lögregluyfirvalda á hættu á alvarlegum glæpum eða hryðjuverkum eða vegið einstaka þætti matsins. Matið er enda er ekki gert opinbert, nema hvað hryðjuverkahættan er sögð í meðallagi. VG getur aftur á móti gagnrýnt hvernig að viðbrögðum lögregluyfirvalda var staðið þegar mati er ekki breytt opinberlega eins og nú stendur á. Persónulega tel ég það ófagleg vinnubröð að kúvenda orðalaust (til að byrja með) opinberri stefnu um óvopnaða lögreglu á almannafæri. Það er ekki faglegt að stilla skyndilega upp vopnuðum sérsveitarmönnum án þess að tilkynna það fyrst almenningi. Gera það án þess að ræða í tíma við borgaryfirvöld í heild sinni og án þess að skýra ástæður og tilgang, svo langt sem öryggi leyfir. Það er rangt að ræða ekki fyrirfram við þing, eða þingnefndir, og þjóðina um þessa grundvallarbreytingu en bera einungis fyrir sig ógnvænlega atburði í nágrannalandi – enn og aftur án þess að breyta viðbúnaðarstigi opinberlega. Ef það stig er óbreytt, af hverju mátti þá ekki láta okkur vita um varðstöðu sérsveitarinnar? Ef um er að ræða stigmögnum hryðjuverka í Evrópu, því er þá ekki viðbúnaðarstigi breytt? Í nokkrum Evrópulöndum sem ég þekki til er látið vita fyrirfram af tímabundnum breytingum á löggæslu af þessu tagi. Loks ber það vitni um ófagleg vinnubrögð að ræða ekki stefnubreytingu innan Þjóðaröryggisráðsins áður en hafist er handa við vopnaða gæslu á almennum mannamótum.
En eiga lögregluyfirvöld ekki einfaldlega að vinna eins og gert var kann einhver að spyrja. Því er til að svara að þrátt fyrir að lögregluyfirvöld hafi eflaust víðtækar heimildir til skyndiákvarðana um aðgerðir, geta þau ekki tekið einhliða flýtiákvörðun um vopnaða gæslu í fyrsta sinn á mannamótum án þess að undirbúa fólk undir það, án raunverulegs samráðs við helstu stjórnvöld og án haldbærs rökstuðnings sem snýr að stöðu, áliti og rétti allra íbúa í landinu – ekki bara með vísun til ógnar erlendis sem eftiráskýringu. Þau geta það ekki ljósi hefða, sögu, siðfræði og góðrar stjórnsýslu. Vopnleysi í almennri löggæslu er heldur ekki aðeins hefð heldur líka pólitísk stefna, í þökk langflestra. Sú stefna hefur þolað hægar breytingar á allri löggæslu þar sem aukin vopnvæðing og myndun vopnasveitar hefur verið tekin í litlum skrefum með ljósum rökstuðningi. Vopnlaus almenn löggæsla og hæg aðlögun að nýjum veruleika, sem sumir vilja kalla svo, er ein undirstaðan að almennt miklu trausti til lögregluliðsins sem heildar, líkt og skoðanakannanir hafs sýnt.
Okkur finnst gott að búa við almennt óvopnaða löggæslu. Við skiljum ef því verður að breyta – en aðeins ef við okkur er talað eins og fólk og ekki vísað til óskilgreindrar innlendrar hættu eða hryðjuverka í allmörgum löndum. Til æfingar hefði mátt velja annað tilefni en litahlaupið (ef það var tilefni gæslunnar), og láta svo vita um framhald nýrra hátta að loknu eðlilegu tilkynningar- og samráðsferli.
Við vitum sennilega öll að Ísland er ekki 100% öruggt fyrir hryðjuverkum en viljum alltaf upplifa fagleg viðbrögð lögreglu sem sæma lýðræðissamfélagi. Gjörð lögreglyfirvalda var hápólitísk og stenst ekki gagnrýni. Það er mitt lokamat.