Iðnaðarráðherra eins og á hugarflugsfundi

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, efndi til sérstakrar umræðu um náttúrupassann og innviði ferðaþjónustunnar á Alþingi í dag. Katrín benti á að bæta þurfi innviði ferðaþjónustunnar en að óvissa ríki um fjármögnun þess af hálfu hins opinbera í ljósi þess að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er skorinn niður og boðaðar hugmyndir um „náttúrupassa“ hafa enn ekki litið dagsins ljós.

„Við vitum enn ekki hvaða leið á að velja til að tryggja hér tekjur fyrir ferðaþjónustuna,“sagði Katrín og bætti við: “Náttúrupassaleiðin hefur fléttast saman við þá hræðilegu vonda stöðu að einstakir aðilar hafa farið í gjaldtöku á ferðamannastöðum.“ Katrín gagnrýndi aðgerðaleysi ráðherra og sagði m.a.: „Við erum komin með einskonar villta vesturs-ástand í gjaldtöku sem stenst væntanlega ekki einu sinni lög.“

Í svari sínu reifaði Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra ýmsar hugmyndir um fjármögnun ferðaþjónustuinnviða en gaf engin skýr svör um hvaða útfærsla verði fyrir valinu. Þetta gagnrýndi Katrín í seinni ræðu sinni og sagði að sér liði „eins og við værum á hugarflugsfundi þar sem ráðherra setti upp ýmsa gula miða“. Katrín sagði jafnframt að brýnt sé að ekki sé brotið á almannaréttinum í þeirri leið sem fyrir valinu verður. „Ég brýni hæstvirtan ráðherra til að nýta þann vilja sem hér kemur fram til samráðs án þess að gengið sé gegn þessum grundvallarréttindum,“ sagði Katrín að lokum.