Ingibjörg Þórðar á þing

Ingibjörg Þórðardóttir kom inn fyrir Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttir á mánudaginn. Ingibjörg hefur starfað lengi á vettvangi VG og tekið af sér ýmis trúnaðarstörf fyrir hreyfinguna. Hún starfar sem íslenskukennari í Verkmenntaskóla Austurlands dags daglega en þetta er þriðja skiptið sem Ingibjörg tekur sæti á þingi, fyrst kom hún inn haustið 2015.
Bjarkey lagði land undir fót til að sækja fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA. En þeir fundir eru haldnir í Montevideo í Úrúgvæ og í Buenos Aires í Argentínu. Ástæðan fyrir þessari einkennilegu staðsetningu fyrir EFTA fund er að næsta lota fríverslunarviðræða EFTA verður við MERCOSUR. En MERCOSUR er fríverslunarblokk í Suður-Ameríku og inniheldur Argentínu, Brasilíu, Paragvæ, Venesúela (í straffi þó) og Úrúgvæ ásamt fleiri löndum sem ekki hafa fulla aðild.