Inni á vellinum

Nú er liðið hálft ár síðan ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við stjórnartaumunum. Greinarhöfundur er sannfærður um að í umræddri stöðu og einungis þegar þannig háttar til, sé okkur í Vinstri hreyfingunni grænu framboði kleift að koma okkar ágætu málefnum og sjónarmiðum áleiðis, svo að einhverju nemi og innan ásættanlegra tímamarka. Hið síðarnefnda er síst minna mikilvægt. Með því er ekki verið að gera lítið úr því ötula og óeigingjarna starfi sem unnist hefur í gegnum árin, en nú styttist óðum í að hreyfingin okkar fagni tuttugu ára afmæli. Á þeim tímamótum er vert að líta stolt um öxl og rýna farinn veg, fínstilla stefnuna og leiðrétta kúrsinn eins og við kann að eiga. Gera verður ráð fyrir að þess sé þörf. Sú framþróun og árangur sem glögglega má sjá að náðst hefur í starfsemi hreyfingarinnar, kallar jafnan á slíkar ráðstafanir. Það breytir hinsvegar ekki þeirri óumdeildu og ánægjulegu staðreynd að ríkisstjórn undir okkar góðu forystu og ásamt stjórn heilbrigðis- og umhverfismála, er ákaflega hentugur og mikilvægur vettvangur til að koma okkar sjónarmiðum skýlaust á framfæri og veita mikilvægum málaflokkum okkar brautargengi í þágu lands og þjóðar. Og nú háttar svo til, kæru félagar, að við erum í þeirri kjörstöðu að geta fylgt umræddu eftir af töluverðum þunga. Það eru breyttir tímar. Við erum sem sagt inni á vellinum og með fyrirliðabandið ásamt því að manna tvær aðrar mikilvægar stöður í nýrri sókn fyrir Ísland og íslenskt samfélag. Í okkar aðkomu með framangreindum hætti skapast ekki einungis tækifæri til að gera gagngerar breytingar, heldur vekur það jafnframt von hjá fólki um allt þjóðfélagið um að betri tímar séu í vændum í formi meiri jöfnuðar, aukinna tækifæra og sanngjarnari og mannúðlegri meðhöndlunar mála, og af ýmsu er að taka. En vandi fylgir vegsemd hverri og byltingarkenndar breytingar verða ekki hristar fram úr erminni. Þolinmæði, úthalds og samstöðu er þörf og á það verður látið reyna, svo mikið er víst. Við sjáum merki þess nú þegar.
Okkar ágæti formaður sem tekið hefur að sér hlutverk forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn hefur leitt mál af styrk og yfirvegun, eins og vænta má af forsætisráðherra, en greinarhöfundur telur að nokkuð hafi skort á fyrrgreint í tíð fyrri ríkisstjórna. Því ber að fagna og virða. Slíku samstarfi fylgir óneitanlega að horfast þarf beint í augu við býsna mikla áskoranir og gera málamiðlanir, líkt og ríkisstjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur hefur þurft að glíma við nú þegar á stuttri ævi og leyst af hendi með stakri prýði. Er það ekki síst að þakka því hvernig formaðurinn okkar hefur kosið að taka á málum, eins og sönnum forystumanni sæmir, með heildarhagsmuni og langtímasjónarmið að leiðarljósi. Hefur það vakið verðskuldaða athygli víða um heim og orðið til þess að orðspor og umtal tengt Íslandi hefur færst upp um marga styrkleikaflokka á tiltölulega skömmum tíma. Hvar sem greinarhöfund ber niður í umræðunni við erlenda aðila, víða að úr heiminum og af ólíkum uppruna, ber viðmælendum saman um að framfaraskref hafi verið stigið með aðkomu okkar hreyfingar að nýrri ríkisstjórn og að undir okkar ágætu forystu eigi það að geta orðið öðrum þjóðum og þjóðarbrotum góð fyrirmynd og til heilla þegar frá líður. Það er án efa okkar ágæta forystufólki að þakka og okkur í Vinstri hreyfingunni grænu framboði, sem erum límið í ríkisstjórnarsamstarfinu, er skylt og rétt að ígrunda jafnan veigamestu mál og takast á við ögrandi áskoranir á hverjum tíma, með umrætt að leiðarljósi og í forgrunni. Það gefur auga leið að ef við sjálf erum ekki með fókusinn stilltann á umrætt, þá gæti það reynst torveldara fyrir þá sem enn standa utan okkar hreyfingar, að glöggva sig til fulls á umræddu. Stjórn landsins er í okkar höndum og rétt er að halda því til haga að á ýmsu hafði gengið í tíð tveggja fyrri ríkisstjórna, sem umtalað var víða um heim og ekki beinlínis til þess fallið að greiða götu Íslands eða auka á virðingu okkar í samfélagi þjóðanna. Víða er pottur brotinn í málefnum barna og óhugnanleg mál hafa komið upp á yfirborðið. Gera verður ráð fyrir að enn sem komið er hafi leyndarhulunni ekki verið svipt til fulls af þeim málum. En nú eru breyttir tímar og greinarhöfundur er sannfærður um að með aðkomu okkar í Vinstri hreyfingunni grænu framboði að stjórn landsins, séu mörkuð tiltekin þáttaskil í meðhöndlun mála hvað varðar jafnan rétt kynja, meðhöndlun á málefnum barna, jafnari skiptingu tekna og tækifæra, úrlausnum fyrir ungt fólk á húsnæðismarkaði og síðast en ekki síst jafnari aðkomu karla og kvenna að stjórn og þátttöku í veigamestu málum og málaflokkum í okkar þjóðfélagi, jafnt í opinbera- og einkageiranum. Þar hefur hallað verulega á konur þó að ýmislegt hafi breyst til batnaðar síðustu árin, en betur má ef duga skal og því fer augljóslega fjarri að við séum komin í áættanlegt jafnvægi hvað það varðar, eins og forsætisráðherra hefur aðspurð réttilega bent á. Greinarhöfundur er fyllilega sannfærður um að mörkuð hafi verið tiltekin þáttaskil hvað varðar framangreint og að við munum ekki líta til baka í þeim efnum. Það er ekki síst okkur í Vinstri hreyfingunni grænu framboði að þakka, að umrædd þróun hefur átt sér stað yfir tiltekið tímabil. Hafandi sagt það gefur það auga leið að aðkoma okkar að stjórn landsins er ekki einungis mikilvæg, heldur beinlínis nauðsynleg – við erum rétt að byrja.
Nú kann að vera að almenningi sé það ekki fyllilega ljóst ennþá, og ríkisstjórnin undir okkar forystu er vissulega ekki ýkja gömul, einungis hálfsárs, sem er um það bil aldurinn sem við förum að geta setið upprétt og óstudd. Það er engum vafa undirorpið að andstæðingar okkar í stjórnmálum, ekki síst flokkar sem eru utan ríkisstjórnarsamstarfsins, munu halda hinu gagnstæða fram um okkar árangur og ágæti tengt stjórnun landsins, hvað sem tautar og raular. Þannig gengur það fyrir sig og við verðum stöðugt að vera minnug þess og láta rödd okkar heyrast og sífellt hærra þegar á þarf að halda, og nú er þörfin fyrir hendi sem endranær. Við erum okkar eigin gæfu smiðir og ráðum örlögum okkar sjálf, eins og þar segir. Teljum við að eitthvað megi betur fara í framvindu okkar hreyfingar, þá er jafnan vænlegast og skjótfengast til árangurs, að einfaldlega líta okkur nær. Samstarfsflokkar í ríkisstjórn sem við skilgreinum ekki sem óvini okkar, eru ekki endilega vinir okkar ef út í það er farið, einungis samstarfskonur og menn í tilteknu verkefni. Aðkoma okkar í Vinstri hreyfingunni grænu framboði að ríkisstjórnarsamstarfinu er til þess fallið að tryggja að verkefnið nái fram að ganga með tilteknum hætti og innan ásættanlegra tímamarka, landi og þjóð til heilla. Án okkar þátttöku í ríkisstjórn landsins breytist ekkert til batnaðar, þvert á móti, þá gæti staða mála versnað til muna. Kjarni máls kristallast ekki síst í fyrrgreindu. Við erum komin til að vera og þá er eins gott að standa styrkum fótum og fórna ekki meiri hagsmunum fyrir minni, ef því er að skipta, og hrapa ekki að ályktunum þegar á móti blæs. Slíkt getur vissulega haft ófyrirséðar afleiðingar í för með sér, og í upphafi skyldi endinn skoða. Ígrunda ber allt gaumgæfilega og af yfirvegun og formaðurinn okkar, forsætisráðherra landsins, hefur gefið tóninn í því undanfarið hálft ár eða svo. Skynsemi og yfirvegun kemur okkur yfir ótrúlegustu torfærur og sú nálgun á mál hefur jafnan verið í hávegum höfð innan okkar hreyfingar.Undir okkar forystu í stjórn landsins er vissulega von til þess að tilteknar umræddar umbætur nái fram að ganga, og með eftirtektarverðum hætti, eins og sér glöggt merki nú þegar. Mikilvægt er að við höldum því á lofti og styðjum ötullega við bakið á okkar frábæru ráðherrum, sem vinna óeigingjarnt starf og hlífa sér ekki í að vinna góðum málefnum og sjónarmiðum okkar í Vinstri hreyfingunni grænu framboði brautargengi. Tímasetning er ákaflega mikilvæg – rétt tímasetning er fyrir öllu, er stundum sagt. Margar ágætar konur og menn hafa komið fram á sjónarsviðið í gegnum tíðina og tekið að sér hin ýmsu verkefni og störf fyrir land og þjóð. Sú staðreynd að okkar ágæti formaður er reiðubúinn að taka að sér það mikilvæga og krefjandi verkefni, sem hlutverk forsætisráðherra óneitanlega er, og það á tíma þar sem ákaflega brýnt er að tilteknar breytingar nái fram að ganga, er mikilvægara en orð fá lýst. Þetta er kjarni málsins kæru félagar og að því ber að hlúa og það er okkar verkefni, allra sem eitt.