Istanbúl samingurinn fullgiltur

 

Fyr­ir sjö árum var Ísland meðal fyrstu 13 ríkja Evr­ópu til að und­ir­rita samn­ing Evr­ópuráðsins um for­varn­ir og bar­áttu gegn of­beldi gagn­vart kon­um og heim­il­isof­beldi, eða Ist­an­búl-samn­ing­inn. Ein und­ir­rit­un kann að láta lítið yfir sér en á þeim tíma var lyk­il­atriði að fá hóp ríkja að borðinu til að samn­ing­ur­inn hlyti þann slag­kraft sem þurfti til að þoka mál­um áfram. Þá var hægt að setja þrýst­ing á stjórn­völd annarra ríkja til að fylgja í kjöl­farið. Nú hafa næst­um öll ríki Evr­ópu und­ir­ritað samn­ing­inn og þannig skuld­bundið sig til að gera allt sem í þeirra valdi stend­ur til að út­rýma of­beldi gegn kon­um og heim­il­isof­beldi. Í gær full­gilti Ísland samn­ing­inn form­lega og er þá tryggt að ís­lensk lög­gjöf stand­ist öll ákvæði samn­ings­ins, sem er mikið fagnaðarefni.

Ist­an­búl-samn­ing­ur­inn er fyrsti bind­andi alþjóðasamn­ing­ur­inn sem tek­ur heild­stætt á bar­átt­unni gegn of­beldi gegn kon­um. Ákvæði samn­ings­ins og lag­aramm­inn hér á landi ná að sjálf­sögðu til of­beld­is gegn fólki af öllu kynj­um en samn­ing­ur­inn viður­kenn­ir eigi að síður að of­beldi gegn kon­um er kerf­is­bund­inn vandi sem verður ekki upp­rætt­ur nema tekið sé á hon­um sem slík­um. Samn­ing­ur­inn hef­ur fyr­ir vikið hlotið lof bar­áttu­sam­taka kvenna víða um heim.

Með samn­ingn­um eru meðal ann­ars lagðar þær skyld­ur á herðar aðild­ar­ríkj­anna að styrkja þjón­ustu við þolend­ur of­beld­is (þar á meðal and­legs of­beld­is), að tryggja að lög­regla geti fjar­lægt gerend­ur í heim­il­isof­beld­is­mál­um af heim­il­um, að skil­greina nauðgun með skýr­um hætti í hegn­ing­ar­lög­um og að lög­festa ákvæði gegn kyn­ferðis­legri áreitni, nauðung­ar­hjóna­bönd­um, lim­lest­ingu á kyn­fær­um kvenna og þvinguðum fóst­ur­eyðing­um. Á Íslandi var meðal ann­ars inn­leitt sér­stakt ákvæði um heim­il­isof­beldi í hegn­ing­ar­lög og skerpt á lög­gjöf gegn nauðung­ar­hjóna­bönd­um. Einnig var gerð breyt­ing á lög­sögu­ákvæðum þannig að sak­sækja megi ís­lenska rík­is­borg­ara á Íslandi þótt brot þeirra séu fram­in utan Íslands og í lönd­um þar sem verknaður­inn er ekki refsi­verður. Þetta gæti til dæm­is átt við um nauðung­ar­hjóna­bönd og lim­lest­ingu á kyn­fær­um kvenna sem færi fram í lönd­um þar sem slíkt er ekki refsi­vert sam­kvæmt lög­um.

Þess­ar laga­breyt­ing­ar eru mik­il­væg­ur áfangi á langri veg­ferð í bar­átt­unni gegn of­beldi gegn kon­um. En full­gild­ing Ist­an­búl-samn­ings­ins er ekki loka­skrefið, þvert á móti. Nú stend­ur upp á stjórn­völd að tryggja að í hví­vetna verði farið eft­ir samn­ingn­um og að unnið sé í anda hans við stefnu­mót­un og laga­setn­ingu. Ég mun leggja mitt af mörk­um til að svo megi verða. Stýri­hóp­ur á mín­um veg­um, með þátt­töku fimm ráðuneyta, vinn­ur nú að því að hrinda í fram­kvæmd tíma­bær­um úr­bót­um sem varða kyn­ferðis­legt of­beldi og tryggja að Ísland verði í fremstu röð í bar­átt­unni gegn hvers kyns kyn­bundnu of­beldi. Meðal verk­efna stýri­hóps­ins er að gera til­lög­ur um sterk­ari rétt­ar­stöðu brotaþola, móta stefnu um aðgerðir gegn sta­f­rænu kyn­ferðisof­beldi og vinna að heild­ar­end­ur­skoðun for­varna og fræðslu í mennta­kerf­inu og sam­fé­lag­inu al­mennt. Bar­átt­an gegn of­beldi er lang­hlaup, ekki sprett­hlaup, og hér gild­ir að halda áfram svo að dag einn geti börn­in okk­ar vaxið úr grasi án ógn­ar­inn­ar af kyn­bundnu of­beldi.

Höf­und­ur er for­sæt­is­ráðherraog greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.