Jafnrétti til náms fyrir öll börn

 

Góð menntun allra barna og ungmenna er ein af grunnforsendunum til að tryggja velferð og jöfnuð í samfélaginu og koma í veg fyrir efnahagslega-og félagslega mismunun.  Samkvæmt lögum þá eiga allir nemendur rétt á að stunda nám við sitt hæfi í grunnskóla, bæði bóklegt nám og verk-og listnám. Sveitarfélögum er skylt að sjá nemendum fyrir viðeigandi námstækifærum  sem fela í sér jöfnuð  óháð atgervi og aðstæðum hvers og eins. Það á ekki að skipta máli hvort nemandi er af íslensku bergi brotin eða af erlendum uppruna, tækifærin til að mennta sig eiga að vera jöfn.

Mikill aðstöðumunur er til menntunar  hjá nemendum með annað móðurmál en íslensku og innfæddra  nemenda bæði hvað varðar stuðning við nám og virka þátttöku í grunnskólanum.  Nemendur með annað móðurmál en íslensku skilja margir hverjir ekki það sem fram fer í kennslustofunni.  Kennslustundir í íslensku sem öðru máli eru víðast hvar allt of fáar og stuðningur við móðurmálskennslu  og /eða faggreinakennslu er  lítill sem enginn. Almennt er brotthvarf nemenda úr framhaldsskóla hærra á Íslandi samanborið við nágrannalöndin. Rannsóknir hafa sýnt að brotthvarf  nemenda með annað móðurmál en íslensku er hærra en innfæddra.

Betur má ef duga skal

Nám er félagsleg athöfn, nám byggir á skilningi og skoðanaskiptum.Börn þurfa að skilja til að geta lært, þau verða að hafa tækifæri til að vera í samskiptum við aðra og kynnast þannig viðhorfum og  menningu, tengt saman orð og athafnir og lært þannig nýja tungumálið. Þau verða að hafa stuðning á eigin móðurmáli í námi  meðan þau eru að ná tökum á nýja málinu. Ekki má gleyma því að tungumál lærist líka í gegnum kennslu í faggreinum þar koma fyrir fræðileg hugtök sem nemendur þurfa að ná tökum á og skilja. Það má ekki svipta erlenda nemendur tækifærinu til að mennta sig með því að kenna þeim bara íslensku í sérhópum eða verklegar greinar. Það takmarkar getu þeirra til frekari náms.

 

Í Pisa könnun (OECD, 2015) kemur fram að nokkrum löndum hefur tekist að minnka mun á frammistöðu innfæddra og innflytjenda í námi. Það sem er einkennandi í þeim löndum og skólum sem skara fram úr á þessu sviði er að þar eru nemendur af erlendum uppruna ekki settir í sérstaka hópa með börnum sem gengur illa í námi eða eru aðskildir sem sérhópur Árangursríkast reynist að bjóða nemendum af erlendum uppruna eins fljótt og hægt er upp á gæðakennslu í nýja málinu til viðbótar við góða kennslu í öllum námsgreinum – burtséð frá því hve lengi barnið hefur dvalið í landinu.

Margt er vitað í dag um þau úrræði sem gagnast geta nemendum með annað móðurmál en íslensku. Það er löngu tímabært að sveitafélögin standi við þær áætlanir sem þau hafa eytt tíma og fjármunum í að vinna. Það þarf ekki fleiri skýrslur eða stefnur það þarf að hefjast handa við vinnuna í skólunum og setja þar inn þá fjármuni  og þau úrræði sem til þarf svo jafnrétti til náms eigi við um alla nemendur.

Rósa Björg Þorsteinsdóttir, kennari

Skipar 3ja sætið á lista Vinstri grænna í Kópavogi.