Jólakveðja frá Katrínu Jakobsdóttur

Kæru félagar!

Nú nálgast jólin og ég vil nota tækifærið og óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar.

Árið hefur verið viðburðaríkt hjá okkur í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Þar ber hæst að nefna sveitarstjórnarkosningar þar sem við Vinstri græn héldum okkar hlut víðast hvar og mynduðum meðal annars meirihluta ásamt fleiri flokkum í Reykjavík. Á árinu voru haldnir þrír góðir flokksráðsfundir þar sem félagar komu saman til að ræða og móta stefnu hreyfingarinnar til framtíðar, m.a. í loftslagsmálum. Ákveðið hefur verið nýtt skipulag málefnavinnu fyrir landsfund þannig að málefnahópar verða starfandi frá áramótum fram á haust 2015 en þá verður landsfundur hreyfingarinnar haldinn. Þá fór fram talsverð fjárhagsleg endurskipulagning, eignir seldar og skuldir greiddar að miklu leyti. Allt er þetta mikilvægur undirbúningur fyrir framtíðina.

Segja má að mannréttindamál hafi verið sérstaklega áberandi þetta árið, þó að tilefni þess hafi verið miður skemmtileg. Hið svokallaða lekamál er svartur blettur á íslenskri stjórnsýslu enda ljóst að þar var viðkvæmum persónuupplýsingum um hælisleitanda komið til fjölmiðla til að sverta mannorð viðkomandi. Að sama skapi var þyngra en tárum taki að sjá hvernig talað var um einn tiltekinn trúarhóp, múslima, í kosningabaráttunni í Reykjavík síðastliðið vor. Það á enginn að þurfa að sætta sig við meðferð af þessu tagi, sérstaklega ekki af hendi stjórnmálamanna sem eiga að gæta hagsmuna alls almennings.

Eitt af stóru verkefnum stjórnmálanna á næstu árum er að vinna að eflingu lýðræðisins og opinni umræðu í samfélaginu. Því miður hefur ekki blásið byrlega í þeim efnum á þessu ári, því samhliða tíðum eigendaskiptum á einkareknum miðlum hefur ríkisstjórnin kosið að skerða framlög til Ríkisútvarpsins og fjölmiðlanefndar. Þetta eru stór skref aftur á bak sem brýnt er að stíga til baka við fyrsta tækifæri. En við eigum líka að snúa vörn í sókn og undirbúa lýðræðisumbætur á fleiri sviðum og beita til þess ólíkum aðferðum. Umræða um þetta fer meðal annars fram í stjórnarskrárhópi Vinstri – grænna sem ég vil hvetja sem flesta til að taka þátt í.

Eftir erfið ár í kjölfar efnahagshrunsins er nú loksins að myndast svigrúm í ríkisfjármálum til að byggja aftur upp það velferðarsamfélag sem við viljum sjá á Íslandi. Hættan er sú að á næstu árum fái tiltölulega fámennur hópur fólks miklar kjarabætur á meðan stórir hópar í samfélaginu verði alveg útundan. Við sjáum tilhneigingu í þessa átt nú þegar: Öryrkjar, aldraðir, atvinnulausir, lágtekjufólk, leigjendur, sjúklingar, barnafólk, og yngri kynslóðir – allt eru þetta hópar sem ekki hafa fengið viðunandi kjarabætur í ljósi batnandi efnahagsstöðu og engin teikn eru á lofti um að úr því verði bætt. Á sama tíma hefur hópur auðmanna og stórútgerðarmanna hagnast mjög. Ekki aðeins er það sanngirnismál að snúa þessari þróun við sem allra fyrst en auk þess sýna nýjar rannsóknir að ójöfnuður dregur beinlínis úr hagvexti og verðmætasköpun.

Það er grátbroslegt að á sama tíma og núverandi ríkisstjórn lækkar auðlindagjöld í sjávarútvegi skuli hún í raun leggja á auðlindagjald á almenning í landinu með hinum svokallaða „náttúrupassa“. Þessar hugmyndir ganga gegn rétti almennings til að ferðast frjáls um eigið land og gera auk þess náttúruperlur Íslands að söluvöru, þeirra á meðal Þingvelli. Á sama tíma reynir stjórnarmeirihlutinn á Alþingi að komast framhjá samþykktum lögum um Rammaáætlun og hefur lagt til að sjö virkjanakostum verði bætt við þann eina valkost sem verkefnastjórn um rammaáætlun hefur lagt til að fari yfir í nýtingarflokk, án þess að fyrir því liggi fagleg rök. Þá hafa fyrirhugaðar aðgerðir til að vinna gegn loftslagsbreytingum verið skornar niður eða slegnar af, þó að það bráðliggi á róttækum aðgerðum í þessum efnum.

Ljóst er að það er þörf á sterkri og skýrri rödd Vinstri grænna í íslenskum stjórnmálum. Við þurfum að halda uppi vörnum fyrir mannréttindi, lýðræðisumbætur, náttúruna og félagslegt réttlæti fyrir alla hópa. Við þurfum að verja grunnstoðir á borð við skólana okkar, heilbrigðisþjónustuna, almannatryggingar, fjarskipti og samgöngur um land allt, og allt það sem gerir samfélagið öflugt og sterkt. Núverandi ríkisstjórn og stefna hennar sem miðar beinlínis að því að færa byrðarnar af hinum tekjuhærri yfir á hina tekjulægri, grafa undan almannastofnunum og auka einkarekstur, fara gegn náttúrunni, fara framhjá öllum faglegum ferlum gefur ekki beinlínis tilefni til bjartsýni. En við þurfum samt að bera höfuðið hátt, standa saman og hvetja hvert annað til dáða enda verkefnin ærin.

Það breytir því ekki að senn líður að jólum og hátíðarundirbúningurinn í fullum gangi hjá okkur flestum. Ég vona að jólin verði okkur öllum góð og við getum nýtt þau til nærveru með okkar nánustu. Bestu þakkir fyrir samstarf og samveru á árinu sem er að líða. Næsta ár verður vonandi farsælt fyrir okkur sem hreyfingu, fyrir samfélagið og fyrir okkur öll.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna