Katrín Jakobsdóttir á leiðtogafundi NATÓ

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sækir leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Brussel í dag og á morgun, 11. – 12. júlí,  ásamt utanríkisráðherra og embættismönnum. Þetta er fyrsti leiðtogafundar hjá NATO sem Katrín sækir fyrir Íslands hönd. Hún segir að spenna ríki vegna krafna Bandaríkjamanna um aukin framlög ríkja til varnarmála, en þær kröfur nái væntanlega ekki til Íslands, eina herlausa landsins í NATO. Forsætisráðherra segir einnig ríkja óvissu óvissu  um önnur mál fundarins meðal annars vegna afsagnar ráðherra í stjórn Theresu May.

Meginefni fundarins eru þróun alþjóðaöryggismála og efling varnarviðbúnaðar og stuðningur við grannríki Atlantshafsbandalagsins. Einnig verður fundað með leiðtogum Georgíu og Úkraínu um umbætur og stöðu öryggismála í Suðaustur-Evrópu. Þá munu leiðtogar þátttökuríkja funda um stuðningsaðgerðir bandalagsins í Afganistan og forseti landsins ræða um friðarhorfur og áframhaldandi umbótastarf. Utanríkisráðherrar og varnarmálaráðherrar bandalagsríkja munu einnig funda með samstarfsþjóðum á meðan á leiðtogafundinum stendur.

Forsætisráðherra tekur einnig þátt í málstofu sem haldin verður í samvinnu við frjáls félagasamtök og hugveitur í tengslum við leiðtogfundinn þar sem rætt verður um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagið.

Forsætisráðherra hittir ennfremur fulltrúa ICAN (International Campaign to Abolish Nuclear Weapons) á sérstökum fundi á fimmtudeginum. Þá mun forsætisráðherra eiga tvíhliða fund með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, og ýmsum leiðtogum aðildaríkjanna á meðan á leiðtogafundinum stendur.