Katrín Jakobsdóttir og Angela Merkel á efnahagsráðstefnu í Berlín

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tekur þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um efnahagsmál á vegum Süddeutsche Zeitung í Berlín á morgun, 13. nóvember. Forsætisráðherra mun einnig eiga tvíhliða fund með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands í Berlín á morgun.Forsætisráðherra flytur ávarp ásamt Jüri Ratas, forsætisráðherra Eistlands og Ana Brnabić, forsætisráðherra Serbíu, á ráðstefnunni. Forsætisráðherrarnir munu einnig taka þátt í umræðum um stafrænar framfarir í Evrópu (Europe Digital – Three countries and Their Vision) að ávörpum loknum sem Wolfgang Krach, aðalritstjóri Süddeutsche Zeitung, stýrir.

Þá tekur Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, þátt í hátíðarkvöldverði þar sem Angela Merkel, kanslari Þýskalands, ávarpar gesti.