Katrín Jakobsdóttir til liðs við alþjóðahreyfinguna Progressive International

Katrín gengur til liðs við alþjóðahreyfinguna Progressive International með Bernie Sanders og Yanis Varoufakis 

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG og forsætisráðherra, hefur gengið til liðs við alþjóðlega hreyfingu vinstrimanna sem hefur það að markmiði að sporna gegn uppgangi hægri öfgaöfla og valdboðshyggju. Hreyfingin gengur undir heitinu Progressive International og meðal annarra þátttakenda eru bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders og fyrrverandi fjármálaráðherra Grikklands, Yanis Varoufakis. Stofnun hreyfingarinnar var kynnt á fyrsta fundi samtaka Bernie Sanders, the Sanders Institute, sem fór fram í Vermont í Bandaríkjunum fyrir helgi.

 

Katrín sendi fundinum stuðningsyfirlýsingu sem er svohljóðandi:

„Alþjóðlegt samstarf er lykilþáttur í að takast á við stærstu viðfangsefni samtímans, svo sem loftslagsbreytingar, félagslegt misrétti, mannréttindabrot og valdboðsstjórnmál. Þess vegna hef ég þegið boð Bernie Sanders og Yanis Varfoufakis um að taka þátt í stofnun Progressive International. Þátttaka mín grundvallast á tveimur þáttum. Í fyrsta lagi tel ég afar mikilvægt að bregðast í sameiningu við uppgangi valdboðshyggju í heiminum, sem er bein ógn við lýðræði og mannréttindi, auk þess að grafa undan hornsteinum lýðræðisins á borð við réttarkerfið og sjálfstæða fjölmiðlun. Í öðru lagi vil ég styðja við þá jákvæðu sýn sem liggur Progressive International til grundvallar, það er baráttan fyrir almennri velferð, öryggi og reisn fyrir allt fólk. Hleypa þarf lífi í alþjóðlega samvinnu á vinstri vængnum til að draga megi úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði, gera breytingar á hinu alþjóðlega fjármálakerfi, snúa frá vopnakapphlaupinu og stöðva loftslagsbreytingar. Nýr alþjóðlegur sáttmáli (International New Deal) gefur fyrirheit um að þarfir venjulegs fólks og jaðarsettra hópa verið sett í öndvegi og að um leið höfnum við stjórnmálum sem hagnýta efnahagslegt óöryggi til að kynda undir útlendingaandúð, kynþáttahyggju, kvenhatri og menningarlegum rasisma.“