Katrín Jakobsdóttir: Til betra samfélags

Kæru félagar!

Það gengur ýmislegt á í stjórnmálunum þessa dagana. Þegar stjórnin féll aðfaranótt föstudags voru það fyrstu viðbrögð okkar Vinstri-grænna að heiðarlegast og eðlilegast væri að gefa þjóðinni orðið og ganga til kosninga. Við áttum þá samtöl við fulltrúa annarra flokka um möguleika á öðrum ríkisstjórnum og nefni ég þar sérstaklega möguleikann á minnihlutastjórn okkar, Framsóknar og Samfylkingar sem varin yrði af Bjartri framtíð og Viðreisn. Þær þreifingar skiluðu engu og því var það okkar mat að styðja þingrof og kosningar þegar ég fór og ræddi við forsetann á laugardaginn. Þar erum við í takt við mikinn meirihluta almennings í landinu eins og skoðanakannanir sýna.

Í þessum kosningum höfum við tækifæri til að gera upp við hægristefnuna og segja skilið við hana til að hefja hér raunverulega uppbyggingu á velferðarkerfinu, heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Það markmið mun ekki nást nema við einbeitum okkur að því að tala við fólkið í landinu um okkar stefnu og okkar markmið. Ef aðrir flokkar ætla að nýta þessa kosningabaráttu til að ráðast á okkur verður það á þeirra ábyrgð að halda Sjálfstæðisflokknum við völd, Við skulum ekki falla í þá gryfju. Nýtum frekar tímann til kosninga í málefnalega og uppbyggilega umræðu um okkar sýn um gott samfélag fyrir okkur öll.

Katrín Jakobsdóttir