Katrín Jakobsdóttir við nýja ríkisstjórn

“Herra forseti.

Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við völdum vorið 2013 kynnti hún stefnuyfirlýsingu þar sem sagði í inngangi: „Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.“

Eftir stærstu mótmæli Íslandssögunnar, eftir að forsætisráðherra hefur stigið til hliðar með 10% traust, er óhætt að segja að þetta markmið hafi ekki tekist. Það má velta fyrir sér hvaða trausts hann – eða Ísland – njóti núna erlendis.

Það má segja að ríkisstjórnin sé orðin eins og party sem hefur staðið of lengi. Partý sem hefði átt að ljúka á miðnætti stendur enn í blokkinni og klukkan er orðin þrjú. Nágrannarnir eru búnir að hringja á lögguna, almenningur er mættur á Austurvöll og biður ríkisstjórnina vinsamlegast að fara og að boðað verði til kosninga. Einstaka gestir í partýinu eru farnir að huga sér til hreyfings, þeir eru búnir að hringja á bíl því þeir átta sig á að gamanið er búið.

Allir ráðherrar með tengsl við aflandsfélög eiga að segja af sér, segir háttvirtur þingmaður Unnur Brá Konráðsdóttir,. Fyrrverandi forsætisráðherra á að segja af sér þingmennsku segir háttvirtur þingmaður Höskuldur Þór Þórhalldsson, háttvoirtur þingmaður Sigmundur Davíð Gunnlaugssonsegir að mál hans sé algjörlega sambærilegt við hans eigin mál – við getum dregið þá ályktun að hann telji að hann eigi að stíga til hliðar eins og háttvirtur þingmaður Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur sjálfur gert. Allir sem eru með augun opin vita að partýið er búið. Partýhaldarinn vill hins vegar halda áfram, hann telur eitthvað ógert, hann vill spila Wild Boys einu sinni enn eða jafnvel tvisvar, hann vill selja nokkra banka, afnema verðtrygginguna, klára nokkur mál eins og húsnæðismálin sem stjórnaflokkarnir koma sér ekki einu sinni saman af, afnám hafta sem allir flokkar eiga að geta leyst sameiginlega – það þarf ekki þessa stjórnarflokka til.

Þótt ég óski hæstvirtum forsætisráðherra til hamingju með embættið þá þykir mér leitt að segja honum að partýið er búið.

Ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar er kölluð í gamni stigamannastjórnin eftir blaðamannafund þeirra Bjarna Benediktssonar í stiga Alþingis í fyrrakvöld. Hvort sem við köllum hana stigamannastjórnina eða ríkisstjórn ríka fólksins, gildir það einu.

Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við fékk hún upp í hendurnar samfélag þar sem almenningur hafði sýnt dugnað og fórnfýsi við að koma fótunum undir samfélagið eftir efnahagshrunið og leggja grunninn að bjartari tímum.

Allt var til staðar svo að hefja mætti uppbyggingu heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins og velferðarkerfisins og síðast en ekki síst endurnýja traust almennings á stjórnmálunum. Traust staða ríkissjóðs, réttlátt skattkerfi og endurlífgað atvinnulíf. Allt var til staðar sem þurfti til að stíga næsta skref í endurreisninni.

Við héldum líka að við hefðum farið í gegnum uppgjör við hrunið.Rannsóknarskýrsla, samþykktir Alþingis um bætt vinnubrögð, þjóðfundur þar sem mikilvægasta gildi þjóðarinnar var heiðarleiki – heiðarleiki sem er forsenda þess að hægt sé að byggja upp traust.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lofaði öllu fögru. Ekki aðeins sagðist hún ætla að starfa í þágu almannahags, virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn sundurlyndi og tortryggni, eyða pólitískri óvissu. Hún ætlaði líka að vinna að víðtækri sátt á vinnumarkaði, treysta undirstöður velferðar og hlúa að þeim sem höllum fæti standa svo fátt eitt sé nefnt.

Hvað stendur eftir af þessum markmiðum? Eða, var þetta eingöngu misskilningur eins og svo margt annað? Að minnsta kosti talaði nýr forsætisráðherra nokkrum sinnum um að hann væri misskilinn hér í óundirbúnum fyrirspurnatíma í gær, alveg eins og sá gamli var stundum misskilinn mörgum sinnum á dag.

Á þessu kjörtímabili hafa verið mestu vinnudeilur sem við höfum séð í marga áratugi. Ríkisstjórnin hefur ítrekað valið að setja lög á vinnudeilur. Yfir 85 þúsund Íslendingar hafa undirritað áskorun um að 11% af landsframleiðslu verði varið til heilbrigðismála. Svar ríkisstjórnarinnar er, þvert á vilja meirihluta almennings, að auka einkarekstur í grunnstoðum heilbrigðiskerfisins.

Í upphafi kjörtímabilsins voru allar forsendur til staðar til að hefja stórsókn að betra samfélagi.

Ríkisstjórnin gerði það hins vegar að sínu forgangsmáli að draga úr getu ríkissjóðs til að ráðast í það mikilvæga verkefni að efla samfélagið og velferðarkerfið. Veiðigjöld, sem tryggðu þjóðinni eðlilegan arð af nýtingu sjávarauðlindarinnar, voru afnumin. Auðlegðarskattur, sem tryggði að auðugasta fólk samfélagsins gæti lagt stærra lóð á vogaskálarnar en aðrir, var ekki framlengdur. Framsækið skattkerfi sem dreifði byrðunum með réttlátum hætti á alla þáttakendur í samfélaginu var sent í tætarann. Orkuskattar á stóriðjuna voru ekki framlengdir.

Hverjum gagnaðist þetta? Almenningi í landinu? Nei! Þetta hefur Ríkissstjórn ríka fólksins gert í þágu stórútgerðarinnar, alþjóðlegra álfyrirtækja, efnaðasta fólksins – í þágu hinna ríku.

Tíðindin sem núna eru mál málanna, að fámennur hópur ríkra Íslendinga eigi eignir í skattaskjólum, og hafi tryggt það að Íslendingar eiga heimsmet í að setja á laggirnar aflandsfélög í skattaskjólum, staðfestir að í þessu landi búa tvær þjóðir. Við sem neyddumst til að takast á við afleiðingar Hrunsins og svo þessi fámenni hópur sem hafði allt sitt í öruggu skjóli, fámennur hópur þar sem finna má auðkýfinga og ráðherra í ríkisstjórn Íslands.

Það hefur orðið alvarlegur trúnaðarbrestur milli ráðamanna og almennings í landinu. Ríkisstjórn Íslands hefur glatað einstöku tækifæri til að halda áfram uppbyggingu íslensks samfélags. Og ekki aðeins tækifærinu til að byggja upp traust á milli stjórnmálanna og almennings í landinu – hún hefur gjörsamlega eytt því litla trausti sem þó var til staðar. Líka traustinu sem Ísland hafði þó náð að afla sér erlendis eftir hrun.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fór illa með umboð sitt, við hana voru bundnar væntingar sem hafa reynst vera falskar. Þess vegna þarf almenningur að fá tækifæri til þess að kjósa og gefa alþingismönnum nýtt umboð. Mikilvægasta verkefnið er nefnilega að byggja upp traust á lýðræðið í þessu landi. Það verkefni er mikilvægara öllum öðrum. Og það verkefni mun reynast þessari ríkisstjórn ofviða.”