Katrín kalla eftir útspili ríkisstjórnarinnar

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna spurði heilbrigðisráðherra um stöðu heilbrigðisstofnana eftir nýsett lög á verkföll hjúkrunarfræðinga og Bandalag háskólamanna. Katrín benti þær miklu uppsagnir sem framundan eru meðal hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum og vísaði til orða heilbrigðisráðherra um að heilbrigðisstofnanir þyrftu að takast á við þennan veruleika. „Það er ekki hægt að vísa allri ábyrgð á því að takast á við þennan vanda, sem núna blasir við, yfir á stofnanirnar.“ sagði Katrín og spurði ráðherra að lokum: „Hvert verður framlag stjórnvalda til að leysa þennan brýna vanda heilbrigðisstofnana?“

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagðist í svari sínu ekki hafa yfirsýn yfir þann vanda sem við blasti að öðru leyti en því að vandinn væri „klárlega vaxandi“. Ráðherra sagðist ekki sjá fram á lausn á vandanum á næstu vikum eða mánuðum enda legðust sumarleyfi starfsmanna ofan á vandann sem nú væri að skapast.

Í seinni ræðu sagði Katrín að brýn þörf væri á útspili stjórnvalda: „Ég get ekki annað en tekið mark á þeim forystumönnum innan heilbrigðisþjónustunnar sem hafa sagt að það þurfi að koma eitthvert nýtt útspil inn í þessa umræðu, inn í kjaraviðræður, til að skapa sátt,“ og tók undir orð Landlæknis um að skapa þyrfti viðvarandi vinnufrið innan heilbrigðiskerfisins. Ráðherra kynnti hins vegar ekkert nýtt útspil frá ríkisstjórninni til að bregðast við uppsögnum en talaði um að þörf væri á endurskipulagningu.