Katrín segir að upplýsa eigi um vopnavæðingu lögreglunnar

Katrín Jakobsdóttir kvaddi sér hljóðs við upphaf þingfundar í dag til að ræða vopnavæðingu lögreglunnar og upplýsingagjöf um hana.

„Fyrstu upplýsingar um það fáum við í gegnum persónulega fésbókarsíðu aðstoðarmanns hæstvirts dómsmála- og forsætisráðherra þar sem hann upplýsir um uppruna vopnanna – að þau hafi verið gjöf frá Norðmönnum þó að aðrir hafi talað um að vopnin hafi verið keypt,“ sagði Katrín og bætti við: „Hæstvirtur dómsmála- og forsætisráðherra notar svo tækifærið til að grínast svolítið á sinni eigin fésbókarsíðu sem væri bara í fína lagi ef hann hefði líka svarað almenningi og Alþingi um þetta stóra og mikilvæga mál.“

Katrín sagði ennfremur: „Að sjálfsögðu á að fara fram umræða á lýðræðislegum opinberum vettvangi þegar svona ákvörðun um stefnubreytingu er tekin innan lögreglunnar. Að sjálfsögðu eiga ráðherrar að veita slíkar upplýsingar og efna til umræðu þó að ekki þurfi lagaheimildir til vopnavæðingar. Og að sjálfsögðu eigum við ekki að þurfa að lesa um það í blöðunum að slíkar ákvarðanir hafi verið teknar og þurfa svo að fylgjast, virðulegi forseti, með fésbókarsíðum hinna og þessara til að átta sig á því hvað hafði raunverulega gerst. Þessi vinnubrögð eru fyrir neðan allar hellur.“