Katrín spyr um forgangsröðun vegna skuldaniðurfellingar

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði forsætisráðherra um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar vegna skuldaniðurfellingarinnar í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Katrín benti á að ákveðið hafi verið að flýta skuldaniðurfellingunni vegna bættrar afkomu ríkissjóðs. „Og þá hljóta auðvitað að vakna spurningar um forgangsröðun,“ sagði Katrín og bætti við: „Á sama tíma og þessi aðgerð er kynnt er lagt fram fjáraukalagafrumvarp þar sem ekki er gert ráð fyrir aukafé í rekstur Landspítalans sem ég hef þó ekki heyrt annað en að fulltrúar allra flokka hafi talað hér um sem algjört forgangsmál.“ Katrín sagði að áhyggjur almennings af heilbrigðiskerfinu fari vaxandi og spurði að lokum hvers vegna bætt afkoma ríkissjóðs sé ekki nýtt til að horfa sérstaklega til heilbrigðisþjónustunnar.

Í svari sínu tók forsætisráðherra undir að margir hafi áhyggjur af stöðu heilbrigðiskerfisins en gagnrýndi niðurskurð á síðasta kjörtímabili. Katrín gerði þessi ummæli ráðherra að umtalsefni í seinni ræðu sinni: „Hæstvirtur forsætisráðherra hóf mál sitt í stjórnarandstöðu eins og hans er siður hér í þinginu og ég reikna með því hins vegar að þegar kjörtímabilið er hálfnað fari forsætisráðherra í ríkisstjórn.“ Að lokum spurði Katrín hvort forsætisráðherra vildi skapa víðtækari sátt um uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu en því svaraði forsætisráðherra ekki í seinna svari sínu.

Katrín Jakobsdóttir hefur einnig lagt fram fyrirspurn í 15 liðum um skuldaniðurfellingu ríkisstjórnarinnar, m.a. um hvernig heildarupphæðin skiptist milli mismunandi tekju- og aldurshópa og milli frádráttarliða og höfuðstólslækkun.