Katrín tekur við jafnréttismálum sem fara í forgang

Jafnréttismálin fara til forsætisráðuneytis þegar velferðarráðuneytinu verður skipt upp í félagsmálaráðuneytið annars vegar og heilbrigðisráðuneytið hins vegar. Tveir ráðherrar sinna þessu ráðuneyti nú þegar þau Svandís Svavarsdóttir og Ásmundur Einar Daðason en einn ráðuneytisstjóri hefur verið yfir því. Þá færast málefni mannvirkja úr umhverfisráðuneyti í félagsmálaráðuneyti.

Markmið breytinganna er að skýra verkaskiptingu, skerpa pólitíska forystu og skapa aukin sóknarfæri í málaflokkum sem ríkisstjórnin setur í forgang. Þingsályktunartillaga þessa efnis verður nú lögð fyrir þingið. Ráðuneytum fjölgar úr níu í tíu og ráðgert er að félagsmálaráðherra verði félags- og barnamálaráðherra. Á það að endurspegla áform stjórnvalda um aukna áherslu á málefni barna og ungmenna. Stefnt er að því að breytingarnar taki gildi um áramót.