Katrín þrýsti á um aðgerðir til fjölmiðlafrelsis

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG og fyrrverandi menntamálaráðherra, tók til máls í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi til að ræða úttekt Fréttamanna án landamæra um fjölmiðlafrelsi á Íslandi þar sem lýst er áhyggjum af stöðu upplýsingafrelsis á Íslandi. „Nefnd eru dæmi þar sem stjórnmálamenn, þ. á m. háttvirtir þingmenn og hæstvirtir ráðherrar hafa gagnrýnt Ríkisútvarpið fyrir að vera of hallt undir Evrópusambandið og vinstristefnu, neitað að veita viðtöl nema með skilyrðum og sett þetta í samhengi við fjárveitingar til stofnunarinnar,“ sagði Katrín og bætti við að búið væri að skera verulega niður til stofnunarinnar undanfarin ár með skerðingu á útvarpsgjaldinu. „Tekið er sérstaklega fram að dregið hafi umtalsvert úr upplýsingafrelsi á síðustu tveimur árum – nokkurn veginn síðan núverandi ríkisstjórn tók við völdum.“

Katrín spurði menntamálaráðherra um viðbrögð hans við úttektinni „og hvort hann telji ástæðu til þess í fyrsta lagi að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins sem enn og aftur fær ekki útvarpsgjaldið að fullu til sín?“ Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra svaraði því til að verið sé að skoða fjármögnun Ríkisútvapsins „og væntanlega mun þá það birtast hér í meðförum þingsins á fjárlagafrumvarpinu“.

Katrín spurði einnig „hvort hæstvirtur ráðherra telji ekki að styrkja þurfi stöðu fjölmiðlanefndar sem núverandi stjórnarmeirihluti skar svo rækilega niður í síðustu fjárlögum að hún hefur engan veginn bolmagn til að sinna lögbundnu hlutverki sínu sem skilgreint er í fjölmiðlalögum?“ Menntamálaráðherra sagðist ekki hafa neinar tillögur um að auka aftur fjármagn til fjölmiðlanefndar.

Í seinni ræðu seinni spurði Katrín hvort ekki væri ástæða til að fara vel yfir fjölmiðlaumhverfi á Íslandi í ljósi stöðunnar sem uppi er, m.a. út frá nýlegum dómi mannréttindadómstóls Evrópu í máli Erlu Hlynsdóttur. Menntamálaráðherra svaraði ekki fyrirspurninni en benti þess í stað aftur á bágu fjárhagsstöðu Rúv sem hann sagði að „hlyti að kalla á endurskoðun“.

Katrín Jakobsdóttir lagði á dögunum fram frumvarp sem kvað á um að útvarpsgjald skyldi renna óskipt til Ríkisútvarpsins og ekki skerðast ár frá ári eins og gert er ráð fyrir í núgildandi lögum sem sett voru í tíð núverandi ríkisstjórnar.